Flóðabílum skipað upp - kviknaði í einum
Þriðja sendingin sem þeir félagar í HAG-PORT fá af flóðabílunum margumræddu, kom til Keflavíkur í gærmorgun með sérstakri bílferju. Var hér um að ræða 162 bíla sem komu frá Amsterdam. 97 þeirra eru af Daihatsu-gerð og 65 af Mazda-gerð. Að sögn Margeirs Margeirssonar hafa þegar verið pantaðir bílar úr þessari sendingu. - Á myndinni til hægri sést skipið sem flutti bílana hingað, en á hinni er verið að skipa bílum upp úr skipinu.
Um miðjan dag á fimmtudag í síðustu viku varð íbúi við Hamragarð var við að eldur var kominn upp í óskráðum Subaru-bíl, sem stóð í innkeyrslunni hjá einum félaganna sem flytja inn hina svonefndu flóðabíla. Var slökkvilið Brunavarna Suðurnesja þegar tilkynnt um eldinn.
Af þessu hlaust mjög mikill reykur sem lagði yfir Garðahverfi og Heiðarbyggð í Keflavík. Eldurinn var í vélarrúmi bifreiðarinnar, sem trúlega er ónýt, bæði af völdum eldsins og reyks, sem fyllti bifreiðina.
Frá slökkvistarfinu í Hamragarðinum í Keflavik. Ljósm.: epj.
VF.is birtir eldra efni af síðum Víkurfrétta sem fögnuðu nýlega 40 ára útgáfuafmæli. Meðfylgjandi grein birtist 10 og 17. mars 1988.