Flakkað um tímann án landamæra
Ferðalag með tímavél, stökkbreytt strætóskýli, Geðveikt kaffihús og myndlist án landamæra. Allt þetta var hægt að upplifa um liðna helgi á listahátíðinni List án landamæra í Reykjanesbæ. Hátíðin tókst sérlega vel og allir viðburðir einstaklega gleðilegir og vel sóttir að sögn Guðlaugar Maríu Lewis, verkefnisstjóra hátíðarinnar.
Stökkbreyttu strætóskýlin settu skemmtilegan svip á bæinn en það voru félagar í Björginni geðræktarmiðstöð sem innréttuðu strætóskýlin eins og heimili. Það er mál manna að nýtt viðmið hafi verið sett og nú verði hreinlega að skreyta skýlin við hin ýmsu tækifæri.
Leikhópurinn Bestu vinir í bænum, sem stofnaður var á List án landamæra fyrir ári, setti á svið sitt annað frumsamda verk, Tímavélina, sem sagði frá óvæntum atburðum sem áttu sér stað í kjölfar andláts. Í leikhópnum starfar saman fjölbreyttur hópur listamanna með einstakri útkomu sem lætur engan ósnortinn.
15 listamenn sýndu verk sín á glæsilegri samsýningu í Bíósal og stendur sú sýning til 1. maí. Þar má einnig sjá myndband eftir ungan mann, Ástvald Ragnar Bjarnason, sem fjallar um drauma hans, sýn á lífið og tilveruna og samskiptin við heim ófatlaðra.
Loks stóðu félagar í geðræktarmiðstöðinni Björginni fyrir Geðveiku kaffihúsi með klikkuðum veitingum og skemmtilegum uppákomum. Fullt var út úr dyrum Svarta pakkhússins og svo sannarlega krydd í tilveruna að bjóða upp á slíkan viðburð.
Að ferðast um tímann birtir okkur þá augljósu staðreynd að landamæri eru sífelldum breytingum háð og í tímans rás verða mörk þeirra óljós. Þannig er List án landamæra í hnotskurn, allir eru þátttakendur , án landmæra – án aðgreiningar.