Fjörugur föstudagur í Grindavík
Röðin náði nánast í næstu götu!
Eftir tveggja ára COVID-pásu gátu Grindvíkingar aftur haldið fjörugan föstudag en þá sameinast fyrirtækin sem eru á Hafnargötunni, og búa til flottan og skemmtilegan dag með tilboðum og lengri opnunartíma. Daginn ber oftast upp á síðasta föstudegi nóvembermánuðar og sú var raunin að þessu sinni.
Víkurfréttir kíktu í heimsókn í útgerðarfyrirtækið Þorbjörn en venju samkvæmt var boðið upp á þjóðarrétt Breta, fish & chips. Allt frá því að þessi skemmtilegi siður var settur á fyrir u.þ.b. tíu árum, þá hefur Hugh Lipscombe sem rekur fjölda fish & chips veitingastaða í Bretlandi, komið með nokkra af starfsmönnum sínum sem steikja á fullu ofan í Grindvíkinga og gesti í þær fjórar klukkustundir sem herlegheitin fara fram. Það voru u.þ.b. 1400 skammtar eldaðir í þetta skiptið, aldrei hefur eins mikið verið eldað. Um tíma náði röðin nánast í næstu götu, slíkur var mannfjöldinn!
Þorbjörn býður sömuleiðis alltaf upp á tónlistaratriði, að þessu sinni var það sjálfur Helgi Björns sem tróð upp en svo var líka Bítlahljómsveitin The BackstaBBing Beatles með fyrrum sóttvarnarlækninn Þórólf Guðnason í broddi fylkingar. Í næsta þætti Suðurnesja magasíns verður partýinu gerð betri skil en talað var við fjölmarga gesti, m.a. þá Helga Björns og Þórólf.
Meðfylgjandi myndir segja meira en fleiri orð.