Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Fjórtán ára gerður að tilraunadýri eftir hræðilegt slys
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 29. mars 2024 kl. 08:22

Fjórtán ára gerður að tilraunadýri eftir hræðilegt slys

Allt þaggað niður. Hönd saumuð við maga. Ótrúleg meiðsla- og veikindasaga Þórhalls Inga Sigurjónssonar úr Grindavík.

„Ég er til í að gera ansi margt ef ég get losnað við sársaukann,“ segir Þórhallur Ingi Sigurjónsson sem lenti í hræðilegu slysi þegar hann var fjórtán ára og bjó í Grindavík. Meðferðin á honum var og er lygi líkust og má segja að hann hafi verið gerður að tilraunadýri hjá lækni á Borgarspítalanum. Þórhallur er stöðugt kvalinn í dag, er ennþá að leita réttar síns og vill að ríkið kosti aðgerð sem framkvæmd er í Þýskalandi. Sú aðgerð á að geta linað þjáningar hans.

Þórhallur er sannfærður um að hafa kíkt hinum megin, hann varði þremur klukkustundum með sjálfum John Lennon og George Harrison kíkti meira að segja við. Þórhallur hafði lengi glamrað á gítar en við þessa uppljómun leysti hann tónlistargyðjuna í sér úr læðingi og hefur samið og tekið upp fjölda laga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Út af líflínunni

Þórhallur man eins og það hafi gerst í gær, daginn örlagaríka 14. ágúst 1978, þegar hann var fjórtán ára gamall. Hann bjó á horni Austurvegs og Mánagötu í Grindavík, beint á móti knattspyrnuvellinum. Föðurafi hans bjó í parhúsi við hliðina á fjölskyldu Þórhalls og var með smíðaverkstæði í bílskúrnum en hafði ekki tilskilin leyfi fyrir verkstæðinu eða vélunum sem þar voru. Þórhallur hafði oft verið að hjálpa til inni á verkstæðinu hjá afa sínum, sópaði gólfin og tók til en fékk slæmt í hálsinn og var því bannað af lækni að vera inni á verkstæðinu. Föðurbróðir Þórhalls var þekktur smiður í Grindavík og kenndi smíði um tíma í grunnskóla Grindavíkur, hann var með öll tilskilin leyfi og var með lærling, sem var um tvítugt á þessum tíma, á samningi hjá sér. Þórhallur mun aldrei geta hugsað þá hugsun til enda hvað hefði gerst ef hann hefði ekki hlýtt kalli lærlingsins þennan örlagaríka dag.

„Ég man hvað veðrið var æðislegt þennan dag, sólin skein og ég var eitthvað að laga keðjuna á hjólinu mínu. Allt í einu kemur lærlingurinn, sem ég ætla ekki að nafngreina, hlaupandi út af smíðaverkstæðinu yfir bakgarðinn til mín og biður mig að koma og hefla nokkrar spýtur með sér en ég segi strax við hann að ég megi ekki vinna inn á verkstæðinu þar sem læknir var búinn að banna mér að gera það. Svo var ég auðvitað allt of ungur til að vinna þar. Hann gaf sig ekki, þrisvar sinnum sagði ég við hann að ég mætti ekki vinna inni á verkstæðinu en hann suðaði í mér þangað til að ég gaf eftir. Versta samþykki sem ég hef gefið, eða eins og ein andleg kona sagði við mig fyrir mjög mörgum árum síðan: „Þarna fórst þú út af þinni líflínu og ert trúlega ekki ennþá kominn á hana.“ Við fórum inn á verkstæðið og ég hjálpaði honum að hefla spýturnar. Að verkinu loknu slökkti hann á vélinni sem snerist áfram en hann gleymdi að setja hlífina yfir. Svo kom frændi minn inn á verkstæðið og ég ætlaði að hlaupa til hans, hrasaði og setti hendina fyrir mig en beint í hefilinn. Ég man sársaukann og skelfinguna eins og þetta hafi gerst í gær, litli putti, baugfingur og langatöng tættust hreinlega, allt skinn, öll bein og liðamót frá handabaki að nöglum hurfu, neglurnar héngu einhvern veginn á því litla skinni sem var ennþá, þetta var alger hryllingur. Það sorglega við þetta allt saman var að afi var inni á verkstæðinu. Af hverju bað lærlingurinn afa ekki um að hefla þessar djöfulsins spýtur með sér? Annað sem ég hef mikið hugsað út í, það hefði verið miklu betra ef öll höndin hefði farið í hefilinn og allir puttarnir farið af, þá væri ég ekki í þeirri stöðu sem ég er í í dag og þessi saga væri í raun engin saga til að segja frá. Ég man hversu ofboðslegur sársaukinn var, afi fann skítuga tusku og vafði henni utan um höndina á mér, fór með mig út á pall og kallaði á mömmu og sagði henni að ég þyrfti að fara á sjúkrahús því ég hefði sett höndina í hefilinn. Á þessum tíma var engin heilsugæsla eða sjúkrabíll í Grindavík, bara Ólafía hjúkrunarfræðingur sem var yndisleg kona. Mamma fékk líklega taugaáfall, fór að leita að lyklunum af bílnum en afi fór inn til sín. Ég hef mikið velt fyrir mér hvernig afi gat bara farið inn í íbúðina sína og gert ekki neitt, væntanlega hefur samviskan verið að naga hann en að geta horft upp á afabarnið sitt og hlustað á skelfingaröskrin í u.þ.b. korter án þess að gera nokkuð, ég hef aldrei getað skilið það. Lærlingurinn og frændi minn sem urðu líka vitni að þessu, að þeir skyldu ekki koma út og hugga þennan fjórtán ára dreng sem hafði lent í hræðilegu slysi. Það er mér líka hulin ráðgáta af hverju þeir gerðu ekki neitt.“

Sjúkrahús og skrípaleikurinn hefst

Helga Þórunn Ingólfsdóttir, móðir Þórhalls, fann loksins lyklana að bílnum, þeir voru í svissinum allan tímann. Afi Þórhalls kom út og settist í framsætið en Þórhallur var kominn í aftursætið. Helga leit á afann og spurði í forundran; „ætlarðu ekki að setjast aftur í hjá drengnum?“ Afinn svaraði með nei-i, þetta væri betra svona og þau lögðu í’ann, þau fram í og Þórhallur hágrátandi í aftursætinu. Þessi bílferð rennur Þórhalli seint úr minni, hann var sárkvalinn og öskraði í sífellu á móður sína að keyra hraðar. Þegar komið var á sjúkrahúsið í Keflavík var enginn læknir á vakt, Þórhallur ráfaði um gangana sárkvalinn með tusku vafða utan um höndina á sér en á þessum tíma var mamma hans ekki búin að sjá hversu illa höndin á syni hans var útleikin. Eftir um klukkustund mætti loksins læknir og þá voru um tveir tímar liðnir frá slysinu. Þórhallur var búinn að ákveða með sér að hann ætlaði ekki að horfa aftur upp á höndina á sér og man skelfingar- og hryllingssvipinn á lækninum þegar hann tók tuskuna af höndinni.

„Því miður leit ég aftur á höndina á mér, þvílíkur hryllingur að sjá þetta fjórtán ára gamall. Mamma sá höndina líka og fékk væntanlega endanlega taugaáfall og enn þann dag í dag skil ég ekki hvernig þessum lækni gat dottið í hug að láta mömmu keyra mig inn á Borgarspítala í Reykjavík. Læknirinn í Keflavík hreinsaði sárið og setti hreinar umbúðir utan um, sagði svo við mömmu að það þyrfti að taka puttana af mér. Sem betur fer gaf hann mér morfín, þvílíka sælutilfinningu hafði ég ekki upplifað, að losna við sársaukann. Við keyrðum því til Reykjavíkur, ég í sæluvímu í aftursætinu og mamma og afi fram í. Það var greinilega svipuð staða þá í heilbrigðismálum, við þurftum að bíða í tvo til þrjá tíma niðri áður en læknir hitti okkur. Loksins kom svo læknirinn, Rögnvaldur Þorleifsson, sem var einn ef ekki færasti skurðlæknir landsins á þessum tíma. Ég man óljóst eftir að hafa hitt hann, var náttúrulega í morfínvímu og búinn að vera í taugaáfalli vegna slyssins. Hann hreinsaði sárið, tók svo nál og stakk í endann á stubbnum sem ennþá hékk og spurði mig hvort ég finndi til. Þarna er enn eitt augnablikið sem ég myndi vilja geta snúið svari eða ákvörðun við, ef ég hefði svarað að ég finndi ekkert, hefði Rögnaldur væntanlega tekið ákvörðun um að taka alla puttana af. Í staðinn hófst í raun hræðilegri martröð en ég var nýbúinn að upplifa,“ segir Þórhallur.

Tilraunadýr

Af því að Þórhallur sagðist finna fyrir nálarstungunni má segja að hann hafi breyst í tilraunadýr á því augnabliki. Hann man ekki eftir sér fyrr en um miðjan næsta dag, þegar hjúkrunarfræðingur stóð yfir honum og sagði: „Ekki hreyfa hægri höndina, hún er saumuð föst við magann á þér.“

Þórhallur vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, fjórtán ára, aleinn án mömmu sinnar og mátti ekki hreyfa hægri höndina því hún var saumuð föst við magann á honum. Rögnvaldur læknir hafði tekið ákvörðun um að græða skinn af maga Þórhalls á puttana og því var farið út í þessa tilraunastarfsemi. Svona aðgerð hafði aldrei verið framkvæmd á Íslendingi að best er vitað. Það ótrúlega er að ekkert samráð var haft við móður Þórhalls og svona mátti hann dúsa í þrjár vikur. Pabbi Þórhalls, Sigurjón, hafði verið á sjó þegar slysið átti sér stað og þegar hann kom í land kíkti hann á son sinn á sjúkrahúsinu.

Myndin til vinstri er fermingarmynd af Þórhalli en hin er tekin ári eftir slysið.

„Pabbi heimsótti mig einu sinni þegar ég lá á sjúkrahúsinu, annars var hann bara á sjónum, svona var þetta á þessum tíma en svo kom hann þegar ég var útskrifaður. Ég var í þrjár vikur á spítalanum, ég fékk sem betur fer heimsóknir frá félögum mínum og Ingólfur móðurafi minn heimsótti mig líka oft. Ég var eina barnið þarna og fannst spennandi þegar karlarnir sem voru með mér á stofu, sendu mig niður í sjoppu að kaupa síga-rettur og sælgæti. Þarna prófaði ég að reykja í fyrsta skipti, með hægri höndina saumaða fasta við magann á mér og líklega byrjaði ég að reykja á þessum tíma en áður en ég lenti í slysinu hataði ég reykingar. Það er skrýtið að hugsa til baka þegar hjúkrunarkonurnar voru að koma og athuga hvernig ég hefði það, þær spurðu hvernig litli Marsbúinn þeirra hefði það. Þær meintu eflaust vel en svona lagað hafði aldrei áður sést á sjúkrahúsinu, ég var bara eins og tilraunadýr. Það störðu allir á þennan fjórtán ára dreng með höndina saumaða fasta við magann og sumir bentu. Ég tók þessu ekki illa en greinilega byrjaði ég strax þarna að grafa tilfinningar mínar niður. Ég líki þessu við að tilfinningar mínar hafi verið eins og Babushka-styttur, þar sem sú minnsta fer ofan í þá næstminnstu og svo koll af kolli. Svona lokaði ég tilfinningar mínar kyrfilega inni og henti lyklinum. Í mínum huga var ég að henda tilfinningum mínum inn í stálskápa.

Ég fékk að koma heim eftir þrjár vikur og var ennþá með höndina saumaða við magann á mér og var heima í viku. Ég man hversu hissa ég var að afi skyldi ekki kíkja yfir til okkar og athuga hvernig ég hefði það, hann lét ekki sjá sig og þetta voru heil tuttugu skref á milli íbúðanna. Svo kom að því að höndin var losuð frá maganum en eftir það hófst enn ein martröðin og ég upplifði ítrekað miklu meiri sársauka en í sjálfu slysinu.“

Pynting á sjúkrahúsi

Þegar Þórhallur var búinn að vera heima í smá tíma, að jafna sig eftir að höndin var losuð frá maganum og hann með svakalegar umbúðir, fann hann allt í einu hvernig blotnaði undir umbúðunum þegar hann rétti úr sér. Mamma hans hafði farið í búðina, Þórhallur var einn heima og fór inn á bað til að kíkja undir umbúðirnar, við honum blasti ekki fögur sjón.

„Ég var búinn að vera í hálfgerðum keng allan tímann en þegar ég rétti úr mér fann ég hvernig allt blotnaði, þegar ég leit undir sá ég bara grænan gröft og það var mjög mikið af honum. Ég var kominn með bullandi sýkingu í sárið. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað þetta þýddi en þóttist vita að þetta væri ekki gott. Ég gat hringt í Ólafíu hjúkrunarfræðing og hún sagði að ég þyrfti að fara eins og skot inn á Borgarspítala. Mamma var frekar lengi í búðinni, það hvarflaði ekki að mér að fara til afa og ömmu. Um leið og mamma kom sýndi ég henni og við fórum í snarhasti til Reykjavíkur. Við þurftum eitthvað að bíða en loksins gat Rögnvaldur kíkt á mig og tók umbúðirnar af. Hann muldraði eitthvað á þá leið að hann grunaði að þetta hefði getað komið fyrir, ég var ennþá með alla saumana í maganum á mér. Hann reyndi eitthvað að þrífa sárið og tók sér svo töng í hönd og fór með hana inn í sárið til að ná í saumana. Ef ég hafði fundið fyrir sársauka eftir slysið, var það í raun barnaleikur við hliðina á þeim vítiskvölum sem ég fann þarna á bekknum. Ég öskraði hreinlega úr sársauka, hann kallaði á auka hjúkrunarkonu og þær tvær bæði héldu mér niðri og héldu fyrir munninn á mér. Svona var ég sárkvalinn í nokkrar mínútur á meðan Rögnvaldur kafaði ofan í skurðinn og losaði saumana. Ég skil ekki að það skyldi ekki hafa liðið yfir mig og af hverju í andskotanum deyfði Rögnvaldur mig ekki? Þegar þessar aðfarir voru búnar þreif hann sárið og setti nýjar umbúðir og sendi mig fram til mömmu. Hún sá hvernig ég var á mig kominn og heimtaði að fá að tala við Rögnvald lækni en það var ekki hægt. Ótrúlegt! Við fórum síðan heim en svo liðu tveir eða þrír dagar og aftur var sama bleytan komin, við aftur á Borgarspítalann og sagan endurtók sig. Rögnvaldur beið mín og tvær hjúkrunarkonur stóðu við vegginn, tilbúnar að halda mér og ég vissi nákvæmlega hvað var að fara gerast. Ég hágrét, spurði Rögnvald hvort hann gæti ekki deyft mig og hann spurði mig, fjórtán ára guttann, hvort ég vildi að hann myndi mænudeyfa mig. Ég vissi ekkert hvað það þýddi en hann gerði ekkert slíkt og skipaði mér upp á bekkinn, kafaði aftur ofan í skurðinn og losaði sauma og hjúkrunarkonurnar héldu mér á meðan ég engdist um, ég trúi varla að ég sé að segja þetta! Ég gæti trúað að þetta hafi líkst því að vera eins og á vígvallarspítala í fyrri heimsstyrjöldinni! Aftur reyndi mamma að ná tali af Rögnvaldi en allt kom fyrir ekki og við send heim. Í þriðja skiptið vall gröfturinn úr sárinu en þá sagði ég mömmu að ég færi ekki aftur til Rögnvaldar! Ég hlýt að hafa fengið pensilín til að vinna á sýkingunni, ég man það ekki alveg en eftir miklar fortölur gaf ég mig og við fórum í þriðja skiptið. Sami hryllingurinn tók við en sem betur fer var þetta í síðasta skipti sem ég þurfti að mæta í svona pyntingarbúðir, sýkingin hefur væntanlega farið en tilraunastarfseminni á mér var alls ekki lokið,“ segir Þórhallur.

Svona lítur hægri hönd Þórhalls út í dag. Aðgerðir voru gerðar á litla fingri, baugfingri og löngutöng. Innfellda myndin er skýrsla Rögnvalds Þorleifssonar, læknis, eftir slysið skelfilega.

Tilraunastarfsemin heldur áfram

Þegar Þórhallur var búinn að jafna sig á sýkingunni fékk mamma hans símtal frá Borgarspítalanum, Þórhallur átti að mæta eftir nokkra daga. Hann var svæfður og drifinn í aðgerð og aftur fékk hvorki Þórhallur né mamma hans að vita hvað átti að gera. Það kom hjúkrunarfræðingunum á óvart hversu lengi Þórhallur svaf eftir að hafa verið svæfður, hann var út úr heiminum í hátt í sólarhring. Spurning hvort undirmeðvitundin hafi verið farin að taka stjórnina, Þórhallur vildi bara ekki vakna eftir þær kvalir sem hann var búinn að vera upplifa. Þegar hann vaknaði eftir aðgerðina fékk hann að vita hvað hafði verið gert.

„Ég fór í fyrstu aðgerðina strax eftir slysið 14. ágúst 1978, 18. maí 1979 fór ég í mína fimmtu stóru aðgerð. Í aðgerðum tvö til fimm voru gerðar frekari tilraunir á mér, bein voru tekin úr mjöðmum og úlnlið og reynt að græða í fingurna á mér. Alltaf reyndi mamma að ná tali af Rögnvaldi en aldrei tókst það, hún fékk ekkert að vita hvað var verið að gera við mig. Loksins eftir fimmtu aðgerðina fékk mamma viðtal við Rögnvald. Þegar hún mætti var hann með skýrslubunkann fyrir framan sig, muldraði eitthvað og þorði aldrei að líta í augun á mömmu nema í lokin þegar hann leit upp og sagði: „Við verðum bara að sjá til.“ Þar með var þeim fundi lokið og mamma fór út með fleiri spurningar en hún hafði komið með. Ég fór í eina svona aðgerð í viðbót, 13. ágúst 1979, og eftir það var mér einfaldlega hent út í lífið. Ég gat ekki rætt þetta við neinn, ég lokaði þessar tilfinningar kyrfilega inni í mér, setti undir mig hausinn og tók á því. Ég fór í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, réði mig svo á sjóinn þegar ég var orðinn sautján ára. Ég náði með herkjum að stunda þessa erfiðisvinnu sem sjómennskan er og var á sjónum í eitt ár og gekk bara vel. Áður en ég réði mig vildi pabbi hitta Rögnvald lækni, væntanlega til að fá blessun hans á að ég færi að stunda þessa erfiðisvinnu. Þetta var skrítið, þetta slys mitt eða hryllingurinn á eftir hafði aldrei verið rætt innan fjölskyldunnar og allt í einu tók pabbi þetta upp með sjálfum sér. Það var skrítið að koma á Borgarspítalann, allir voru hræddir við Rögnvald en við pabbi fengum fund með honum. Hann skoðaði mig eitthvað og sagði að ég hefði nú haft gott af sjúkraþjálfun á sínum tíma en sagði svo að ég hefði bara gott af því að fara á sjóinn, svo mörg voru þau orð. Eftir eitt ár sem háseti ákvað ég að mennta mig til vélstjóra og hóf nám í Vélskólanum árið 1982.“

Mynd tekin fyrir tuttugu árum síðan (t.v.). Með friðarsúluna í Viðey í baksýn.

Menntavegur þyrnum stráður

Þórhallur telur sig nokkuð greindan mann og hugur hans leitaði til viðskipta og þá lá beinast við að fara í Verzlunarskóla Íslands. Einn galli var bara á gjöf Njarðar, Verzlingurinn þurfti að geta vélritað og það gat Þórhallur eðlilega ekki. Þess vegna gleymdi hann öllum framavonum varðandi viðskipti og skráði sig í Vélskólann. Þarna hélt hann að veikindasögu sinni væri lokið en því fór víðs fjarri. Hann fór að finna til í maganum og fór því til meltingarsérfræðings sem heitir Birgir Guðjónsson.

„Ég fór í fullt af rannsóknum á árunum ‘84 til ‘90, hætti svo að finna til og gleymdi þessu þannig séð. Ég fór svo að finna aftur fyrir þessu og árið 2014 sagði ég Birgi loksins frá þessu og þá kveikti hann á perunni. Hann var fljótur að sjá að það að byrgja svona lagað inni í sér kemur alltaf aftan að manni og það kemur að skuldadögum. Þegar maður fær sjokk fær maður hnút í magann, það þekkja allir en að byrgja svona lagað inni í sér eins og ég lenti í gat ekki endað vel. Ég fór í ótal rannsóknir á þessum árum í kringum 1984 og fann mig ekki í vélstjóranáminu og hætti. Ég prófaði rafvirkjun, gafst upp á því og athugaði þá með rafeindavirkjun, gafst sömuleiðis upp á því. Ég ráfaði um óttalega stefnulaus, lokaði mig af og leið alls ekki vel, var greinilega farinn að glíma við þunglyndi á þessum tíma. Svo datt mér í hug að fara til Svíþjóðar, fékk vinnu við smíðar og var úti í níu mánuði og náði mér ágætlega á strik. Þegar ég kom heim réði ég mig á sjóinn á Vaðlaberginu hjá Guðjóni Einarssyni. Ég var kominn með fyrsta stigið í vélstjórnarnáminu og gat ráðið mig sem annan vélstjóra. Þarna kemst ég á beina braut má segja. Ég kláraði svo vélstjóranámið og sjómennskan tók við, í minningunni var þetta góður tími. Auðvitað átti ég eftir að gera upp fortíðina en ég byrgði þetta bara allt inni svo ég skautaði í gegnum lífið á hnefanum má segja. Ég var vélstjóri á Grindvíkingi frá ‘93 til ‘98, átti frábæran tíma þar og var svo aftur 2000 til 2003, fór þaðan yfir á frystitogarann Vigra en kunni aldrei nógu vel við mig á slíkum veiðiskap. Fór svo yfir á Júpiter og sjómennskunni lauk svo árið 2007 þegar ég réði mig hjá hitaveitunni í Svartsengi. Ég vann þar fram til ársins 2015 en þá voru verkirnir í höndinni búnir að taka sig upp og ná yfirhöndinni. Síðan hef ég verið öryrki,“ segir Þórhallur.

Þórhallur eignaðist gítar fyrir tvítugt, hann segir að tónlistin sé búin að halda mér gangandi undanfarin ár.

Eyddi þremur klukkustundum með John Lennon

Líf Þórhalls hefur síður en svo verið dans á rósum síðan hann þurfti að hætta að vinna. Hann hefur reynt flest það sem er í boði, m.a. hugleiðslu og hefur hitt miðla. Hann hefur farið frá einum lækni til annars til að reyna fá bót meina sinna, t.d. hitti hann taugalækni sem sagði honum að algengt sé að taugakerfið geti aftengt taugar sem hafa skaddast en einhverra hluta vegna vakna þær svo aftur. Hann fór að finna fyrir í hendinni árið 2014, hitti þá heimilislækninn sinn sem ávísaði honum til handasérfræðings og hér er hann í dag, tíu árum síðar, og hefur ekki getað slakað á í hendinni, er með stöðuga verki sem ágerast bara.

„Ég fór á milli lækna sem endaði á að ég lagðist enn og aftur undir hnífinn. Ég hafði brotið putta um aldamótin og fékk stálplötu, læknirinn hélt að hún orsakaði sársaukann og tók hana en ekkert breyttist. Þegar ég hugsa til baka tel ég að þarna hafi allir stálskáparnir, Babushka-stytturnar, farið að opnast. Allt það sem ég hafði byrgt inni í mér vildi komast út og við það gat ég ekki ráðið.

Ég þurfti ekki fleiri skurðaðgerðir á þessum tíma, ég þurfti að vinna andlega úr áfallinu sem ég hafði lent í. Ég hélt samt áfram að reyna fá bót meina minna og fór aftur í aðgerð árið 2017. Þá var langatöngin, sem hafði verið skökk og snúin, stytt. Við þá aðgerð versnaði ég bara. Allt kom fyrir ekki og allir þessar læknar sáu sæng sína upp reidda gagnvart mér, þeir gátu ekki hjálpað mér svo ég endaði hjá verkjateyminu á Landspítalanum. Þessi deild er fyrir fólk sem er með stöðuga verki og þarna upplifði ég bestu og sérstökustu lífsreynslu sem ég hef nokkurn tíma upplifað. Mér voru gefnar þrjár sprautur með deyfilyfjum beint í æð og ég vissi ekki fyrr en ég var kominn á annað tilverustig og var þar í þrjá klukkutíma. Ég er sannfærður um að hafa farið hinum megin og sá fyrsti sem ég hitti var John Lennon. Ég hef aldrei upplifað aðra eins alsælu, ást og hlýju. Ég hafði alltaf hlustað á Bítlana og Lennon var í uppáhaldi hjá mér en hann komst í nýjar hæðir þarna hjá mér. Þarna var hann í allri sinni dýrð og ekki nóg með það, George Harrison kom líka, pollrólegur eins og hans var von og vísa en Lennon var í þvílíkum gír. Ég fann síðan hvernig ég var að detta til baka en náði með hugarorkunni að fara aftur til Lennons. Þetta gerðist í nokkur skipti en að lokum datt ég úr vímunni og vaknaði. Hjúkrunarfræðingurinn horfði einkennilega á mig. Ég mundi allt sem hafði gerst og þegar læknirinn kom að athuga með mig sagði hann að ég hefði látið hjúkrunarfræðingana fá nett taugaáfall, ég hefði verið að tala við John Lennon allan tímann.“

Skáldagyðjan heimsækir Þórhall

Ástæða þess að læknirinn gaf Þórhalli þessar þrjár sprautur var sú að hann var að reyna opna fyrir taugaendana. Hann fór til annars sjúklings eftir að hafa gefið Þórhalli sprauturnar en fékk síðan símhringingu frá hjúkrunarfræðingunum, þær voru logandi hræddar því Þórhallur var í hrókasamræðum á ensku við John Lennon. Læknirinn heyrði í gegnum símann hvað Þórhallur sagði og eftir að hann var vaknaður sagði læknirinn honum hvað þetta hefði verið sérstök upplifun fyrir sig. Hann hefði séð marga upplifa eitthvað nýtt en aldrei hefði hann séð annað eins og hjá Þórhalli, sem er sannfærður um að hafa verið á meðal þeirra sem hafa yfirgefið þetta tilverustig.

Þórhallur eignaðist gítar fyrir tvítugt, hann hafði ekki mikið verið að reyna semja en við þessa upplifun losnaði eitthvað úr læðingi. Lennon birtist Þórhalli oft í draumum og hefur hann samið lög sem hann tileinkar goðinu sínu.

„Ég myndi segja að tónlistin sé búin að halda mér gangandi undanfarin ár, þetta gefur mér ofboðslega mikið. Ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá að vinna tónlistina mína með þeim feðgum, Jóhanni Ásmundssyni og Ásmundi syni hans. Þeir reka stúdíó rétt fyrir utan Sandgerði sem heitir Paradís. Þeir feðgar eru algjörir snillingar, mér finnst mjög gott að vinna með þeim. Ég man ekki alveg hvað ég er búinn að gefa mörg lög út, ég er með helling af hugmyndum sem ég á eftir að vinna betur úr og taka upp. Eigum við ekki að segja að draumurinn sé að gefa út plötu. Mér hefur þótt þægilegra að semja á ensku en þarf að reyna gera meira af því að semja á íslensku, það er eðlilegra að semja á okkar ylhýra fyrir landa mína. Ég geri ekki ráð fyrir að fara í útrás með tónlistina mína en þó veit maður aldrei. Ég vil helst ekki gera upp á milli laganna minna en vil þó minnast á lagið Calling Johnny, það fjallar um samtal mitt við Johnny Cash en hann lenti í áfalli í æsku þegar hann missti bróður sinn í slysi,“ segir Þórhallur.

Æxli, fyrirgefning og varanleg lausn í Þýskalandi

Í þessu viðtali var komið inn á veikindin í maganum sem Þórhallur fór að finna fyrir eftir að hann hóf nám í Vélskólanum. Hann hafði alltaf fundið fyrir því af og til og þegar verkirnir voru farnir að ágerast árið 2019 fór hann í frekari rannsóknir og í ljós kom risavaxið æxli sem var fjarlægt með skurðaðgerð. Ekki var vitað hvort æxlið væri ill- eða góðkynja og það var sett í ræktun. Aldrei hafði annað eins æxli sést hér á landi og tók heila tólf daga að rannsaka það, sem betur fer reyndist æxlið góðkynja.

Þórhallur er að hugleiða hvort hann eigi að prófa aðgerð þar sem rafskauti verður komið fyrir utan á mænunni. Hleðslukubbi er komið fyrir neðarlega í bakinu á honum og tvisvar sinnum á dag þarf að hlaða kubbinn, í klukkustund í hvort skipti. Þórhallur er með efasemdir með þessa aðgerð enda bara 50% líkur á fullum bata. Ef draumar hans rætast fer hann til Þýskalands. Hann hefur komið auga á handlæknastofu, Handzentrum, sem sérhæfir sig í handaáverkjum en svona aðgerð kostar mikið og peninga á hann ekki í bílförmum eftir að hafa verið á örorkubótum undanfarin ár.

Vítahringur

„Þessi aðgerð með rafskautið við mænuna er eitthvað sem ég hef mínar efasemdir um. Þeir segja að ég þurfi fyrst að skrá mig í meðferð inn á Vog til að hætta svefntöfluáti en hvað á ég að gera? Ég get ekki sofnað fyrir verkjum nema ég taki svefntöflur en mest hef ég tekið nítján svefntöflur á einni nóttu. Ég er kominn í stóran vítahring með þetta og veit satt best að segja ekki hvað ég á að gera. Ég er alltaf bestur fyrri part dagsins á meðan svefntöflurnar eru ennþá í mér. Á kvöldin er ég venjulega viðþolslaus af verkjum og verð að taka svefntöflur bara til að geta róað mig niður. Fyrir síðustu aðgerðina árið 2017 var ég að taka hálfa til eina svefntöflu en eftir hana er ég bara alltaf að drepast í hendinni og verð að taka fleiri.

Ég kom mér í samband við læknamiðstöð í Köln í Þýskalandi, Handzentrum, sem sérhæfir sig í handaáverkum. Ég er búinn að senda þeim allt um slysið mitt og þeir vilja ólmir fá mig út, þeir segjast aldrei hafa séð annað eins. Þeir geta auðvitað ekki lofað neinu en vilja fá að reyna. Þetta kostar bara mikinn pening. Ég vona að landlæknir vilji skoða mitt mál, ég veit að landlæknisembættið getur skoðað öll mál, þau fyrnast ekki. Ég hef hingað til fengið höfnun frá landlækni og heilbrigðisráðherra en ég ætla ekki að gefast upp.

Ég finn í hjarta mínu að ég vil geta fyrirgefið öllum sem eiga þátt að máli. Þegar ég hitti sérfræðing í höfuðbeina- og spjaldhryggjameðferð, en þessi kona er skyggn, spurði hún mig á meðan ég lá á bekknum hvort mér þætti Rögnvaldur hafa gert mig að tilraunadýri. Ég játti því og þá sagði hún mér að Rögnvaldur væri hjá sér og honum þætti þetta mjög leitt. Hann sagði að þegar ég lenti í slysinu hafi verið svo lítið vitað um taugar, tveimur til þremur árum síðar hafi verið komin miklu meiri vitneskja og ef ég hefði lent í slysinu þá hefði hann aldrei framkvæmt þær aðgerðir á mér sem hann gerði. Hann bað mig um fyrirgefningu og ég sagðist fyrirgefa honum. Eftir það grét ég eins og krakki og Rögnvaldur gerði það víst líka hinum megin. Eftir á að hyggja finn ég því miður að ég hef ekki alveg náð að fyrirgefa en ég er að vinna í því daglega og vil geta fyrirgefið öllum allt. Það er ekki gott að þurfa líka að burðast með hatur, nægur er víst pakkinn sem ég þarf að burðast með,“ sagði Þórhallur að lokum.

Myndband við lagið sem Þórhallur minnist á í viðtalinu, textinn er samtal Þórhalls við Johnny Cash, sem missti bróður sinn í sambærilegu slysi og Þórhallur lenti sjálfur í.