Fjörheimar hlutu verðlaun fyrir orkudrykkjafræðslu
Fjörheimar hlutu Hvatningarverðlaun Samfés fyrir orkudrykkjafræðslu á dögunum. Fjöldi verkefna voru tilnefnd til Hvatningarverðlauna Samfés í ár en verðlaunin eru veitt á aðalfundi Samfés ár hvert. Verðlaunin voru úthlutuð til 6 verkefna að þessu sinni og hlutu Fjörheimar verðlaun fyrir orkudrykkjafræðslu fyrir ungmenni.
Orkudrykkjafræðslan fólst meðal annars í því að gefin voru út myndbönd til vitundarvakningar á neyslu orkudrykkja meðal íslenskra ungmenna. Í myndböndunum má finna fjölbreyttan hóp af fólki frá Reykjanesbæ sem bregst við sláandi staðreyndum um neyslu orkudrykkja. Starfsfólk Fjörheima hélt fræðslu og sýndu myndböndin í grunnskólum bæjarins. Ástæður fyrir verkefninu eru nýlegar niðurstöður frá Rannsóknum og Greiningu en þar kemur fram að íslensk ungmenni eru að drekka mest af orkudrykkjum af öllum í Evrópu.