Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Fjörheimar fullorðna fólksins
Katrín Arndís Blomsterberg. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Föstudagur 28. desember 2018 kl. 06:00

Fjörheimar fullorðna fólksins

Cafe Petite er staður með sérstöðu

Cafe Petite hefur verið starfandi í rúm fimm ár og hefur á þeim tíma unnið hug og hjörtu heimamanna í Reykjanesbæ. Katrín Arndís Blomsterberg var aðeins tvítug þegar hún réðst í það að opna staðinn ásamt unnusta sínum Ágústi Dearborn. Þá þótti mörgum reyndar hugmyndin ekki góð. Að opna kaffihús í bakhúsi við dekkjaverkstæði fjarri Hafnargötunni. Þær hrakspár hafa fokið út í veður og vind og nýlega festu skötuhjúin kaup á húsnæðinu og eru hvergi nærri hætt að skemmta Suðurnesjafólki og gestum.
 

Dass af kæruleysi

 
Staðurinn átti ekki að verða þessi hefðbundni djammstaður þar sem fólk mætir seint um nótt og dansar og drekkur, heldur var lagt upp úr því að fólk gæti komið og fengið sér óáfenga sem og áfenga drykki, spjallað saman, spilað billjard og haft það notalegt. Vel hefur tekist til hvað það varðar en staðurinn er mjög vinsæll á meðal vinnufélaga og vinahópa, sem láta fara vel um sig í sófum staðarins.
 
„Þetta var allt gert með dass af kæruleysi. Ef ég væri að fara út í þetta núna þá myndi ég hugsa þetta allt mun betur. Okkur langaði að kýla á þetta og hugsuðum bara, hvað er það versta sem gæti gerst? Ef þetta myndi ekki ganga þá værum við allavegana búin að reyna þetta. Það var annað hvort að opna kaffihús eða kaupa bíl,“ tjáir Katrín blaðamanni. Katrín er Njarðvíkingur og ættu margir af eldri kynslóðinni að þekkja til ömmu hennar sem rak prjónastofu Katrínar um árabil í Njarðvík. „Allir sem fæddir eru fyrir 1990 vita hver hún er,“ segir Katrín og hlær.
 
„Viðhorfið frá fólki var ekki það besta. Fyrir það fyrsta að vera að fara opna kaffihús í Keflavík. Svo ofan á það vorum við að fara að hreiðra um okkur á bak við dekkjaverkstæði fjarri Hafnargötunni. Fólk var á því að þetta myndi ekki endast mikið meira en sex mánuði.“ 
 
Framboð á húsnæði var ekki mikið á Hafnargötunni á þeim tíma þegar þau réðust í verkefnið en þau höfðu heldur ekki áhuga á að vera þar endilega. Annað hvort var húsnæði of stórt eða of lítið að þeirra mati. „Mér hefur fundist mikil áhersla vera lögð á að staðir séu á Hafnargötunni í augsýn allra. Kannski voru aðrir að hugsa það sama og við, að fólk væri þreytt á því að allir vissu hvert þú værir að fara eða hvað þú værir að gera. Þannig að svona staðsetning var flott tilbreyting.“

 

Erfitt að skilgreina staðinn 

 
Staðurinn sker sig úr að vissu leyti og er erfitt að skilgreina hann. Hægt er að tala um kaffihús, bar eða billiard­stofu jafnvel. Katrín segir að á vefsíðum eigi fólk í vandræðum með að skilgreina staðinn sem ýmist er sagður billiardstofa, veitingastaður, kaffihús eða bar. „Mér finnst mjög erfitt að skilgreina okkur. Þetta er bara Petite. Allt sem fór í taugarnar á okkur svona almennt með aðra staði, tókum við saman og gerðum akkúrat öfugt. Þannig vildum við ekki að það væri pressa á að fólk væri að neyta veitinga. Líka þannig að fólki fyndist það ekki vera að taka of mikið pláss og þú fengir ekki þá tilfinningu að einhver væri að bíða eftir borðinu þínu. Við vildum ekki hafa óþægileg sæti sem myndu ýta undir það að fólk væri að flýta sér út.“
 

Sérstakt samfélag sem myndast

 
Katrín segir að 90% gesta þeirra sé heimafólk og mikið sé um fastagesti. „Þetta er búið að ganga öllum vonum framar og er orðið hálfgert samfélag þar sem mikið er um fastagesti. Við tókum einmitt upp á því að velja viðskiptavin mánaðarins og hengja mynd af þeim upp á vegg.“ Þetta hefur þótt skemmtilegt og myndar ákveðinn heimilslegan brag. Óneitanlega myndast ýmis sambönd á svona stað og á Katrín skemmtilegar sögur af því að fólk hafi hitt maka sinn fyrst á staðnum.
 
 „Ég rakst á það á Facebook að fólk var að tala um það hvar það kynntist makanum sínum. Þar var verið að ræða hvað barnið þitt myndi heita ef það yrði skírt eftir staðnum sem þú hittir makann. Þá voru þarna tvær athugasemdir þar sem fólk sagði Cafe Petite. Þannig að við erum að stuðla að því að fjölga fólki í Reykjanesbæ,“ segir Katrín og brosir. „Ég kynntist líka einni bestu vinkonu minni á Petite­. Við byrjuðum að spjalla og hún hjálpaði mér að færa sófa.“

 

Er eigandinn við?

 
Tvítug var Katrín farin að standa vaktina á bakvið barborðið sem eigandi staðarins. Fólk hefur ákveðnar fyrirfram gefnar hugmyndir um að Ágúst kærasti hennar sé einn eigandi staðarins. „Hann er karlmaður og tíu árum eldri en ég. Það sem er mest pirrandi við þetta er að það er enginn sem ætlar sér að vera með einhverjar ákveðnar hugmyndir fyrirfram. Þetta er reyndar búið að batna helling en það kom ýmislegt upp þegar við vorum að byrja. Þegar ég var að fara á einhverja staði og ræða mál varðandi samninga var ég spurð að því í móttökunni hvort ég væri að fara að heimasækja pabba minn í vinnuna. Eins hef ég verið spurð að því hvort eigandinn sé við og þegar ég segist vera annar þeirra þá fæ ég jafnan tilbaka, var það ekki líka einhver karl?“
 

Nemur sálfræði samhliða rekstri

 
Katrín hefur nóg að gera utan vinn­unnar sem er hennar annað heimili. Hún reyndi fyrir sér í viðskiptafræði en endaði í sálfræði sem hún kláraði samhliða rekstri staðarins. Hún verður svo með þeim fjórum fyrstu á landinu sem útskrifast með meistaragráðu úr megindlegri sálfræði og vinnur að meistaraverkefni um þessar mundir.
 
„Það er bara betra því meira sem ég vinn á staðnum á meðan mikið er að gera í skólanum. Ég hef stundum sagt í lok dagsins að mig langi ekki heim, þarna hef ég í raun allt sem ég þarf,“ segir Katrín létt í bragði um annað heimili sitt.



Viðtal: Eyþór Sæmundsson // [email protected]
Public deli
Public deli