Fjörheimar ferðuðust til Hollands

Elva Dögg Sigurðardóttir, tómstundaleiðbeinandi Fjörheima, og Gunnhildur Gunnarsdóttir, forstöðumaður, sóttu um styrk hjá Erasmus+ og fóru á dögunum til Hollands þar sem þær sóttu áhugavert námskeið sem haldið var í smábænum De Glind. Eramus+ veitir styrki til verkefna í æskulýðsstarfi og segjast stelpurnar í samtali við Víkurfréttir hafa lært heilmikið af ferðinni.
 
„Þetta var mjög fjölbreytt og skemmtilegt og við lærðum margar nýjar aðferðir til þess að koma skilaboðum okkar á framfæri. Við fórum í gegnum fullt af krefjandi verkefnum en sátum sjaldnast kyrr í sætunum þegar við leystum þau. Við vorum annað hvort á gólfinu eða lágum úti í grasinu, fórum í göngur, leystum verkefni í hópum eða tjáðum okkur á listrænan hátt. Við lærðum nýjar leiðir til þess að takast á við daglega starfsemi Fjörheima, bæði hvað varðar skipulag en þá aðallega hvað varðar samskipti við ungmennin og hvernig við getum nýtt hæfileika okkar og þekkingu til þess að byggja upp ánægjulegt og lærdómsríkt starf fyrir þau á þeirra forsendum.“
 
Á námskeiðinu voru fimmtán þátttakendur frá tíu löndum og segja þær það hafa verið virkilega skemmtilegt að hitta fólk frá víðast hvar í Evrópu og áhugavert að heyra mismunandi áherslur í æskulýðsstarfi milli landanna. „Við öfluðum okkur líka upplýsinga varðandi svokölluð ungmennaskipti, en það er þegar nokkur lönd eða félagsmiðstöðvar fara í samstarf sín á milli og ungmennin hittast á námskeiði í ákveðnu landi og fara yfir málefni sem eru þeim hugleikin. Okkur finnst þetta mjög spennandi verkefni og höfum mikinn áhuga á því að fara með ungmennin okkar í slíkt verkefni ef þau hafa áhuga á því sjálf.“

 

Fjörheimar ferðuðust til Hollands