Fjör og stuð í Fríhöfninni í tilefni af öskudegi
Öskudagurinn var haldinn hátíðlegur í þriðja sinn í Fríhöfninni í dag. Stemningin var mjög góð enda margs konar verur á ferli sem skemmtu farþegum sem voru á leið í flug.
Í tilefni af öskudegi ákváðu starfsmenn Fríhafnarinnar að halda upp á daginn með því að mæta til vinnu í furðufötum sér og farþegum til mikillar gleði. Verurnar settu mikinn svip á lífið þegar þær fóru í gegnum hefðbundna öryggisleit í upphafi vinnudags í flugstöðinni og skemmtu þeir sér vel með farþegum og öðru starfsfólki.
Það voru heldur betur litríkir einstaklingar sem mættu til starfa. Batman gegndi því hlutverki að halda furðuverunum réttu megin við lögin, trúðar sáu um að allir skemmtu sér vel, ræstitæknar sáu um að sótthreinsa innkaupakörfur fyrir farþega, munkarnir og nunnan töluðu fyrir friði í flugstöðinni, Disney fígúrurnar valhoppuðu á meðan píurnar stilltu sér upp fyrir myndatöku. Einnig mættu nokkrir kokkar á svæðið, sennilega til að matbúa eitthvað gott fyrir gesti og gangandi og íþróttafólk, þar á meðal boxari og tóku þau einn leik saman. Farþegar hlógu og skemmtu sér og tóku myndir þó svo sumir hafi staðið undrandi um stund á þessari uppákomu.
Hér eru nokkrar myndir frá öskudeginum í Fríhöfninni. Ljósmyndirnar tók Óli Haukur.