Fjör í tíu ára afmæli Akurskóla
Nemendur og starfsfólk Akurskóla hélt upp á tíu ára afmæli skólans 9. nóvember síðastliðinn. Afmælinu var fagnað vel á ýmsan hátt. Að morgni afmælisdagsins komu allir nemendur saman í íþróttahúsinu og sungu afmælissönginn. Kór skólans leiddi svo hópinn í söng þar sem sunginn var nýr skólasöngur Akurskóla. Höfundur söngsins, Guðmundur Hreinsson, fékk viðurkenningu fyrir sönginn. Þá fengu allir nemendur skúffukökur og mjólk í nestistíma.
Í tilefni af afmælinu færði foreldrafélagið skólanum forláta bjöllu að gjöf. Þegar verið var að undirbúa gjöfina kom í ljós að skipsbjallan er úr Voninni KE 2 sem Gunnlaugur Karlsson, afi Sigurbjargar Róbertsdóttur, gerði út frá Keflavík í mörg ár.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri mætti í afmælið og vígði hval á lóð skólans. Hvalurinn hefur fengið nafnið Rauðhöfði. Rauðhöfða unnu nemendur skólans ásamt Helgu Láru Haraldsdóttur myndlistarkennara allt skólaárið í fyrra með aðstoð Sigmundar Friðrikssonar.
Afmælisdeginum lauk svo á því að fulltrúar úr hverjum árgangi settu ýmis verk í tímahylki sem opnað verður eftir fjörutíu ár þegar skólinn fagnar fimmtíu ára afmæli sínu. Í samráði við kennara sína ákváðu nemendur að setja ýmis verk í tímahylkið, svo sem myndir og samtímaupplýsingar um vinsælustu tónlistina, fatnaðinn, stjórnmál, leikara og fleira. Sumir nemenda settu myndir af sér í tímahylkið.
Hvalurinn Rauðhöfði vígður á lóð skólans. Hvalinn bjuggu nemendur til á síðasta skólaári.
Kór skólans leiddi söng allra nemenda í íþróttahúsinu. Sunginn var nýr skólasöngur Akurskóla eftir Guðmund Hreinsson.