Mannlíf

Fjör í frímínútum
Sunnudagur 25. september 2016 kl. 06:00

Fjör í frímínútum

- Vinaliðar skipuleggja leiki í frímínútum í Stóru-Vogaskóla

Hjá Stóru-Vogaskóla í Vogum er nú að hefjast annað skólaárið þar sem vinaliðaverkefni er starfrækt. Verkefnið gengur út á það að vinaliðar úr 3. til 7. bekk skipuleggja fjölbreytta leiki í löngu frímínútunum. Að sögn Svövu Bogadóttur, skólastjóra Stóru-Vogaskóla, er markmiðið að allir nemendur hlakki alla daga til að mæta í skólann sinn. Vinaliðaverkefnið er norskt að uppruna og hefur á fáum árum náð mikilli útbreiðslu og er nú starfrækt í yfir þúsund skólum í Noregi.

Vinaliðaverkefnið í Vogum hefur gengið vel og nemendur ánægðir með nýja skipulagið í frímínútum. Svava segir gaman að sjá hve duglegir nemendur er að taka þátt í leikjum og kenna hvert öðru. „Á síðasta skólaári bættum við leikföngum og áhöldum smátt og smátt við, bæði eftir ábendingar frá krökkunum sjálfum og samskipti við vinaliða annara skóla,“ segir hún. Fyrirkomulagið er þannig að á hvorri önn veljast 20 krakkar úr 3. til 7. bekk og fara þau öll á vinaliðanámskeið í upphafi annar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Skólalóðin og frímínúturnar eru, samkvæmt rannsóknum, helsti vettvangurinn fyrir einelti. Vinaliðaverkefnið er ekki eineltisáætlun heldur stuðningsverkefni við eineltisáætlun skólans og er hugmyndafræðin sú að þar sem boðið er upp á skipulagt starf, fái gerendur eineltis aðra hluti til að hugsa um. Aðgerðarleysi er nefnilega oft rótin að slæmum hlutum.

Hressar vinkonur saman í frímínútum

Þessir krakkar voru saman í flöskustút í frímínútum.

Skotboltinn er vinsæll leikur í frímínútum.

 

Þessi hópur var í flöskustút en gaf sér smá tíma í myndatöku.