Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fjör í Fischershúsi á Ljósanótt
Fimmtudagur 5. september 2024 kl. 12:40

Fjör í Fischershúsi á Ljósanótt

Það er fjölbreyttur hópur karla og kvenna sem sýna í Fischershúsi á Ljósanótt í ár. Þau segjast ákveðin í að skemmta sjálfum sér og öðrum, sem vilja hafa gaman þessa daga sem hátíðin fer fram. Stemmningin á Ljósanótt sé ávallt engu lík, bæjarhátíð sem engin má missa af.  Hér geturðu kynnt þér fólkið sem sýnir í Fischershúsi á Ljósanótt.

Bjørg og Maren Sofie

Frá Noregi koma eiginkona og dóttir Karvels Strømme, þær Bjørg og Maren Sofie, en Karvel er ættaður úr Njarðvíkunum. Karvel á stóra fjölskyldu á Íslandi, sérstaklega í Reykjanesbæ. Móðir hans var Kristbjörg Ögmundsdóttir en allir hennar bræður og systur fluttu frá Snæfellsnesi til Njarðvíkur. Bróðir Kristbjargar var Karvel Ögmundsson en hann var oddviti í mörg ár í Njarðvík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kristbjörg fór ung til Noregs árið 1925 og giftist þar Norðmanninum Arthur Strømme. Þau bjuggu í Bergen.  Karvel sonur Kristbjargar heitinnar, býr fyrir utan Bergen í Noregi og ferðast oft til Íslands með fjölskyldu sína og einnig sem leiðsögumaður fyrir norska hópa. 

Þær mæðgur Bjørg og Maren Sofie ætla að sýna málverk á Ljósanótt í Fischershúsi. Bjørg sem er menntuð sem listgreinakennari hefur unnið með nemendum í þrjátíu ár á öllum skólastigum í Noregi. Hún sýnir yfirleitt bæði vatnslitamyndir og akrylmyndir en ætlar eingöngu að sýna núna akrylmyndir. Bjørg hefur haldið margar sýningar víðsvegar í Noregi síðan árið 2002.

Dóttirin Maren Sofie hefur málað í þrjátíu ár og sýnt víða í Noregi og einnig á Íslandi. Árið 2023 sýndi hún í Gallerí 67 á Laugaveginum í Reykjavík. Maren Sofie málar aðallega með akryl og notar mismunandi tækni. Hún er mjög upptekin af því að sýna andstæður og liti sem tengjast árstíðum. Náttúran í Noregi og á Íslandi gefur henni innblástur í listsköpunina.

Mæðgurnar sýndu báðar síðast í Pakkhúsinu á Ljósanótt árið 2007 og voru mjög ánægðar með þá upplifun. Fjölskyldan á góðar minningar frá þeirri Ljósanæturhátíð og hittu þá mikið af ættingjum sínum sem búa hér. Þau segjast hafa hrifist af stemningunni á Ljósanótt, gleðinni, frábærum listsýningum, skemmtilegu fólki og góðum mat. Sérstaklega þótti þeim gott að borða kjötsúpuna.

Þau segjast ekki hafa mikla reynslu af Ljósanótt en að kannski verði hátíðin í ár upphafið að reglulegum heimsóknum á haustin til Íslands? Þau vonast til að hitta marga ættingja og vini þetta árið.


Rut Ingólfsdóttir

Rut er alin upp í Keflavík þar til hún flutti að heiman sextán ára vestur á firði. Á Ljósanótt verður hún með Litlu leirsjoppuna sína. Þar ætlar hún að frumsýna nýju leirverkin sín en eftir tólf ára pásu frá leir fannst henni kominn tími á hann aftur. Rut verður einnig með málverk og pappamassa.

Rut segir það hafa fylgt sér frá því að hún man eftir sér að skapa eitthvað, teikna, skrifa, mála og svo framvegis. Hún fór á leirnámskeið hjá Ársól í Garðinum fyrir mörgum árum og eftir það á rennslunámskeið á Álftanesi. Þá var ekki aftur snúið segir hún og þau fjölskyldan fluttu út til Danmerkur í fjögur ár þar sem hún lærði við Aarhus kunstakademi og útskrifaðist þaðan sem keramiker árið 2007. Rut bjó ásamt fjölskyldu sinni í Keflavík í nokkur ár eftir námið í Danmörku en býr nú í Hafnarfirði.

Hún segist fá það sama út úr því að skapa og að anda að sér súrefni, þetta sé eitthvað sem hún getur ekki verið án. Það gerir lífið fallegra, innhaldsríkara og skemmtilegra segir Rut sem hefur sex sinnum verið með sýningu á Ljósanótt.

Fyrir henni er Ljósanótt hátíð þar sem haustinu er fagnað, þar sem við kveikjum ljósin sem eiga eftir að lýsa okkur í gengum dimman veturinn í átt að næsta vori. Fyrir gamlan Keflvíking er Ljósanótt virkilega skemmtileg hátíð segir Rut, þar sem hún hittir ekki bara fjölskylduna sína heldur allt samfélagið aftur, sem hún var hluti af. Það sé hápunktur hátíðarinnar að hennar mati að hitta allt fólkið.

Rut hefur þó nokkrum sinnum farið í árgangagönguna, en þegar hún hefur verið með sýningu þá hefur hún notið þess að fylgjast með öllum í göngunni skunda framhjá, niður Hafnargötuna. Hún hittir mjög marga gamla vini á Ljósanótt og sérstaklega þegar hún hefur verið með sýningar. Henni finnst virkilega gaman að hitta allt þetta fólk.

Í ár þykir henni sérlega skemmtilegt að fá að sýna í Fischershúsi með Gunnari gamla kennaranum sínum og Stebba, því báðir tengjast þeir Myllubakkaskóla í Keflavík, en faðir hennar Ingólfur Matthíasson kenndi einnig við sama skóla.

Rut segir það kjörið tækifæri fyrir fjölskyldur að koma saman á Ljósanótt, sjálf fer hún yfirleitt í matarboð nema þegar hún er upptekin af því að sýna. Hún segir að hefðin sem hefur fylgt henni á Ljósanótt sé að setja ljós í gluggana heima hjá sér. Þótt hún sé flutt úr Keflavík þá fylgir sú hefð henni að fagna haustinu með ljósum í glugga, það yljar hjartanu segir Rut að sjá ljós þegar skammdegið breiðist yfir.

Melkorka Matthíasdóttir

Melkorka er uppalin í Ólafsvík á Snæfellsnesi. Hún er jarðfræðingur, kennari og leirlistakona. Melkorka tengist bæjarfélaginu í gegnum manninn sinn, Keflvíkinginn, Ingva Jón Gunnarsson. Þau bjuggu í Keflavík á árunum 1994–2001 en eru nú búsett í Mosfellsbæ.

Melkorka sýnir leirlistaverk ásamt tengdaföður sínum, Gunnari Þóri Jónssyni en þau nefna sameiginlega sýningu sína „Keramik og krass“. Melkorka segist alla tíð hafa verið að skapa eitthvað í höndunum, mest teiknað og málað en kynntist leirlist í Ljósinu þegar hún var í endurhæfingu eftir krabbameinsmeðferð árið 2017. Eftir endurhæfinguna skráði hún sig strax í tveggja ára diplómanám í leirlist í Myndlistaskólanum í Reykjavík þaðan sem hún útskrifaðist vorið 2021. Fyrir forvitna má skoða instagram síðuna hennar sem nefnist melkorka.ceramics

Melkorka hefur aldrei sýnt áður á Ljósanótt en fjölskylda hennar hefur tekið þátt í viðburðum á Ljósanótt á hverju ári og hún hefur hitt ættingjana í súpu á laugardagskvöldinu ásamt því að skoða listasýningarnar. Að hennar mati er Ljósanótt skemmtilegasta bæjarhátíðin þar sem tónleikarnir á laugardagskvöldinu og flugeldasýningin eru hápunktar hátíðarinnar.

Ingvi Jón fer stundum í árgangagönguna og hún hefur einnig farið með honum. Ef veðrið verður gott í ár mæta þau líklega í gönguna.

Endurfundir við gamla vini og fjölskyldu á Ljósanótt er alltaf skemmtilegt, að sjá mörg kunnugleg andlit og að eiga spjall við fólk á Hafnargötunni. Þetta er klárlega tækifæri fyrir fjölskyldur að koma saman. Það er orðin föst hefð hjá hennar tengdafólki að koma saman í mat á laugardeginum.

Ennfremur segir Melkorka: „Á sýningunni minni á Ljósanótt sýni ég hvernig ég hef verið að nýta kunnáttu mína sem jarðfræðingur og gert tilraunir með glerunga utan á steinleirinn sem ég vinn með. Glerungarnir mínir eru blandaðir með taðösku og beykiösku sem ég fæ frá Reykofninum í Kópavogi ásamt ýmsum íslenskum jarðefnum eins og íslenskum leir, silti og eldfjallaösku. Það má því segja að verkin mín séu að mörgu leyti sjálfbær og nærumhverfið nýtt til fullnustu.“


Gunnar Þór Jónsson

Gunnar Þór er borinn og barnfæddur Keflvíkingur. Hann hefur starfað og búið í Keflavík nánast alla sína ævi, sem grunnskólakennari, skólastjórnandi og ökukennari.

Á Ljósanótt verður hann með sýningu í Fischershúsi, ásamt tengdadóttur sinni, Melkorku Matthíasdóttur. Þau kalla sameiginlega sýningu sína “Keramik og krass” en þar ætlar Gunnar að sýna blýantsteikningar sem hann hefur unnið undanfarin tvö ár. Langflestar myndir eru frá Suðurnesjum, eftir ljósmyndum sem hann hefur sjálfur tekið.

Gunnar notar mjög mjóa skrúfblýanta við myndsköpunina og tekur það hann óratíma að gera hverja mynd. Alltaf þegar hann teiknar, hlustar hann á tónlist, sem hjálpar honum að gleyma sér og njóta sín í myndsköpuninni.

Hann segist alltaf hafa haft gaman af því að teikna, en gert mismikið af því í gegnum árin. Það má segja að þetta hafi aukist verulega hjá Gunnari fyrir um það bil fimm árum, en hann hélt sína fyrstu sýningu á Ljósanótt árið 2022 og var þá einnig í Fischershúsi. Það er gaman að geta þess að í herberginu, sem Gunnar og Melkorka sýna, var heimili tengdaföður hans, Ingvars Hallgrímssonar og fjölskyldu í nokkra mánuði, þegar þau fluttu til Keflavíkur fyrir 85 árum síðan.

Gunnar segir Ljósanótt vera skemmtileg hátíð. Þar gefist tækifæri til að hitta bæjarbúa og ekki skemmir það fyrir þegar gamlir skólafélagar og vinir mæta á staðinn. Alveg frá upphafi Ljósanætur, komu grunnskólarnir að setningu hátíðarinnar. Honum fannst alltaf gaman að ganga með Heiðarskólanemendum sem leið lá í Myllubakkaskóla þar sem setningin fór fram. Í árgangagönguna hefur Gunnar nánast alltaf mætt og þykir gaman.

Mjög fljótlega skapaðist sú hefð á Ljósanótt að systkini Gunnars og fjölskyldur hittast á laugardeginum og borða saman súpu um kvöldið, áður en haldið er af stað niður í bæ til að hlýða á tónlistaratriðin sem í boði eru og hitta bæjarbúa. Honum finnst erfitt að nefna eitthvað eitt sem hápunkt Ljósanætur en langar samt að nefna árgangagönguna og allar listasýningarnar. Tónlistaratriðin og allt fólkið sem kemur og heimsækir bæinn okkar. Bara allt frábært.

Stefán Jónsson

Stefán verður einnig í Fischershúsi á Ljósanótt. Hann er fæddur og uppalinn í Keflavík og hefur búið og starfað þar alla sína ævi. Stefán ætlar að vera með myndlistarsýningu, bæði olíu- og vatnslitamyndir.  Hann hefur teiknað og málað frá því að hann man eftir sér, það gefur honum gleði og innri ró.

Stefán hefur verið með myndlistarsýningar í nokkur skipti og finnst alltaf jafn gaman og skemmtilegt að hitta allt þetta fólk sem kemur á Ljósanótt. Honum þykir bæjarhátíðin mjög skemmtileg. Árgangagangan og flugeldasýningin eru hápunktar hátíðarinnar að hans mati. Stefán mætir alltaf í árgangagönguna þrátt fyrir að hann sé einn af sýnendum. Yfirleitt hittir hann gamla vini og það sé alltaf gaman. Stefán fer yfirleitt í matarboð á Ljósanótt eða heldur matarboð heima hjá sér á laugardagskvöldinu fyrir fjölskylduna.

Þrátt fyrir að vera sjálfur með sýningu þá segist hann reyna að ná að sjá sem flesta viðburði og sýningar.


Marta Eiríksdóttir

Marta er fædd og uppalin í Keflavík en hún starfar sem jógakennari og rithöfundur.  Hún ætlar að bjóða gestum og gangandi að skoða nýjustu bók sína sem er sjötta útgefna bókin hennar. Bókin nefnist Orkuljósin sjö – viskan innra með þér.

Marta hefur skrifað sögur síðan hún var lítið barn. Áður en hún lærði að skrifa texta þá skáldaði hún út frá myndum í bókum. Henni líður mjög vel þegar hún er að skrifa og skálda. Þetta sé bæði köllun og ánægja.

Marta tók fyrst þátt í Ljósanótt í fyrra en áður var hún almennur gestur eins og flestir sem heimsækja Reykjanesbæ þessa hátíðisdaga, sem er líklega skemmtilegasta bæjarhátíð á landinu, segir hún sposk. Keflavíkurhjartað slær ljúflega á Ljósanótt.

Hápunktur Ljósanætur er laugardagurinn, segir Marta en þá má hitta fullt af gömlum vinum, brottfluttum bæjarbúum og auðvitað gestum sem sækja hátíðina heim.

Ljósanótt er svo sannarlega kærleiksrík bæjarhátíð sem gengur mikið út á það að hitta fólk. Árgangagangan er ein af hápunktunum segir Marta og ánægjuleg fyrir þá sem ólust upp í bæjarfélaginu. Þá er einnig gaman að skoða allt sem er í boði þessa daga. Ótrúlega skemmtilegt allt saman, segir Marta.

Margar fjölskyldur koma saman á Ljósanótt og borða saman á laugardagskvöldinu en Marta hefur ekki verið í matarboði á Ljósanótt hin seinni ár.

Flugeldasýningin á laugardagskvöldinu er einnig ein af hápunktunum, það er alltaf einhver rómantík í loftinu. Allir svo glaðir og kátir. Faðmlög út um allan bæ.

Marta segir að þau sem sýna saman þetta árið í Fischershúsi ætli að opna dyrnar fimmtudaginn þann 5. september klukkan fimm síðdegis og taka á móti gestum fram til klukkan tíu um kvöldið. Öll helgin verður mjög litrík í Fischershúsi. Þangað verður gaman að koma og margt ótrúlega skemmtilegt að sjá.

Fischershús Hafnargötu 2

Við Hafnargötu 2 í gömlu Keflavík stendur Fischershús, sem gegnt hefur stóru hlutverki á Ljósanótt, bæjarhátíð Reykjanesbæjar en hátíðin fagnar 25 ára afmæli í ár.

Í Fischershúsi hafa margir listamenn stigið sín fyrstu skref í sýningarhaldi en þar hefur einnig ritlistafólk komið fram. Ljósanóttin í ár skartar enn og aftur fjölbreyttum hópi fólks á sviði lista í húsinu.

Gaman er að rifja upp sögu þessa merka húss en það var árið 1881 sem Waldimar Fischer, eigandi miðverslunar í Keflavík, lét byggja tvíloftað timburhús úr bindingsverki fyrir verslun sína og sem íbúðarhús.

Allt timbur í húsið var tilsniðið og merkt í Danmörku. Grindin var sett saman með geirneglingum og þurfti enga nagla við smíði hennar. Útveggir voru klæddir listasúð og þakið klætt steinskífum í anda Alþingishússins sem byggt var sama ár.

Verslun var á neðri hæð hússins og er þar enn að finna hluta gamallar búðarinnréttingar. Fischershús var fyrsta tvílyfta húsið í Keflavík. Nýbyggt var það talið „ ... svo vandað og veglegt að allri smíð, frágangi og fegurð, að annað eins hefur ekki verið byggt sunnanlands ...“

Árið 1900 var Fischersverslunin seld Ólafi Á. Olavsen. Seinna sama ár var verslunin seld HP Duus sem flutti Duusverslun starfsemi sína í húsið. Á 20. öld var húsið lengi í höndum útgerðarmanna og fiskvinnslufyrirtækja en reittust af því fjaðrirnar smám saman.

Fischershús er friðlýst og er varðveislugildi hússins talið mjög mikið, m.a. vegna þess hve byggingin er heilstæð, vel útfærð og heildarform hennar hefur haldist óbreytt.  Í húsinu eru bæði upphaflegar innréttingar og þiljur.

Árið 2013 hófust framkvæmdir við fyrsta áfanga endurbyggingar hússins samkvæmt áætlunum og uppdráttum Páls V. Bjarnasonar arkitekts.