Fjör á sumarnámskeiði í Garðinum
Um tuttugu og fimm krakkar hafa sótt sumarnámskeið í félagsmiðstöðina Eldingu í Garðinum í sumar og haft nóg að gera. Í byrjun sumars voru útbúin matjurtarbeð og settar niður ýmsar tegundir af grænmeti, kartöflur og annað góðgæti. Þegar þeirri vinnu lauk var hafist handa við byggingu kofa og þar hafa krakkarnir byggt hús, stóla, borð og ýmislegt sem nýtist í og við hús. Er nú risin hin myndarlegasta kofabyggð við félagsmiðstöðina, sem skartar grænmetisgörðum og kassabílum. Eftir að hafa málað hús sín, húsbúnað og annað var hafist handa við smíða kassabíla og bruna börnin nú um nýmalbikað planið við Eldinguna og tónlistarskólann, á bílum sínum.
Þar sem veðrið í sumar hefur ekki leikið við börnin hefur félagsmiðstöðin nýst vel til að stökkva inn í leiki og ýmis verkefni. Hildur Sigfúsdóttir hefur starfað sem flokksstjóri í vinnuskólanum í sumar og stýrt námskeiðinu af krafti, með aðstoð nemenda úr vinnuskólanum.
Myndir og texti af heimasíðu Garðs.