Fjölskylduvæn fyrirtæki og dagforeldrar heiðraðir á Degi um málefni fjölskyldunnar
Dagur fjölskyldunnarFjölskylduvæn fyrirtæki og dagforeldrar í Reykjanesbæ voru heiðraðir sl. laugardag á Degi fjölskyldunnar í Duushúsum þar sem boðið var upp á fjölbreytta dagskrá.
Markmiðið dagsins er að vekja athygli á málefnum fjölskyldunnar á líðandi stundu, tengslum fjölskyldulífs og atvinnulífs og mikilvægi þess fyrir fjölskyldur og fyrirtæki að hugað sé vel að jafnvægi milli þessara þátta.
Rut Þorsteinsdóttir foreldri deildi sögu sinnar fjölskyldu undir titlinum „Ekki eru allar fjölskyldur eins" sem var hugljúf frásögn foreldra 3ja barna, þ.a. tveggja fatlaðra og langveikra, um væntingar, baráttu, samstöðu og mikilvægi stuðnings þegar á reynir í lífi manns, ekki hvað síst stuðnings stórfjölskyldunnar og vina.
Samhliða því að viðurkenningar voru veittar til fjölskylduvænna fyrirtækja í Reykjanesbæ voru dagforeldrar í Reykjanesbæ heiðraðir fyrir starf sitt. Starfssemi dagforeldra er nauðsynlegur hlekkur í þjónustu við fjölskyldur í Reykjanesbæ. Dagforeldrar eru mikilvægt þjónustustig og stuðningur við börn og fjölskyldur áður en að leikskóladvöl kemur. Dagforeldrar sinna börnunum á viðkæmu þroskastigi og því mjög mikilvægt fyrir foreldra að starfsemin sé traust og fagleg. Alls voru það 10 konur sem hlutu viðurkenningu fyrir að hafa starfað samfellt í 10 ár eða lengur sem dagforeldri í Reykjaensbæ. Viðurkenningar hlutu Anna Andrésdóttir, Anna Björg Gunnarsdóttir, Áslaug Bæringsdóttir, Fjóla Hilmarsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Harpa Sæþórsdóttir, Kolbrún Þórarinsdóttir, Ólöf Marteinsdóttir, Sesselja Woods Kristinsdóttir og Sigríður E. Jónsdóttir. Lengstan starfsaldur dagforeldra í þessum hópi átti Ólöf Marteinsdóttir en hún hefur á þessu ári starfað í 30 ár sem dagforeldri.
Dagur fjölskyldunnarFjögur fyrirtæki fengu viðurkenningu sem fjölskylduvæn fyrirtæki 2009. Tilnefningar og rökstuðningur kom frá starfsmönnum fyrirtækjanna og í samræmi við framkvæmd fjölskyldustefnu Reykjanesbæjar er stofnunum og/eða fyrirtækjum á almennum markaði, sem sett hafa sér fjölskyldustefnu og þykja af starfsfólki sínu skara fram úr varðandi jákvætt viðmót til fjölskyldunnar veittar viðurkenningar þar að lútandi. Að þessu sinni voru það fyrirtækin Gagnavarslan ehf., Skólamatur ehf. Njarðvíkurskóli og Fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar sem hlutu þessar viðurkenningar.
Öllum þeim sem lögðu Degi um málefni fjölskyldunnar lið með einum eða öðrum hætti er þakkað hjartanlega fyrir þátttökuna og er dagforeldrum og fyrirtækjum óskað til hamingju með viðurkenningarnar.
Með von um að þetta verði öðrum hvatning í starfi og ekki síst hvatning til fyrirtækja um að setja fyrirtæki sínu fjölskyldustefnu og stuðla þannig að auknu jafnvægi milli atvinnulífs og fjölskyldulífs.
Texti: Hera Ósk Einarsdóttir, félagsráðgjafi/verkefnastjóri
Efri myndin: Verðlaunahafar sem fengu viðurkenningar á laugardaginn.
Neðri myndin: Rut Þorsteinsdóttir sem flutti erindi á Degi fjölskyldunnar ásamt eiginmanni sínum, dóttur og Hjördísi Árnadóttur félagsmálastjóra.