Fjölskylduratleikur í Þekkingarsetrinu
Aldrei verður of mikil áhersla lögð á mikilvægi samverustunda foreldra og barna, sérstaklega í þessu hátæknisamfélagi sem við lifum orðið í. Sumarið er svo sannarlega tíminn til samveru og útivistar, jafnvel þó að það rigni eins og gert hefur nokkuð af í sumar. Í Þekkingarsetri Suðurnesja er að finna tvær sýningar sem höfða jafnt til barna sem og fullorðinna en nú í sumar býður setrið til viðbótar upp á skemmtilega nýjung sem er fjölskylduratleikurinn Fjör í fjörunni.
Heiti leiksins er ekki endilega lýsandi fyrir hann þó að fjaran sé einn af áfangastöðum leiksins, því farið er vítt og breitt um nágrenni Sandgerðis þar sem Þekkingarsetrið er staðsett.
Leikurinn er spennandi og skemmtilegur og hentar öllum aldurshópum. Það eina sem þarf að hafa meðferðis er myndavél og ökutæki af einhverju tagi. Fundvísi og góða skapið hjálpa svo til! Þeir sem ná að ljúka ratleiknum með réttum svörum og fullnægjandi afrakstri mega eiga von á glaðningi.
Fjölskylduratleikurinn er skemmtileg og áhugaverð viðbót við þá afþreyingarmöguleika sem fyrir eru á Suðurnesjum. Hann reynir á þekkingu og athyglisgáfu einstaklinga og í honum felst fræðsla á náttúrunni í kringum okkur og lífríki hennar. Við hvetjum alla til þess að gera sér glaðan dag í Þekkingarsetrinu og spreyta sig á ratleiknum. Við lofum góðri skemmtun!
Nánari upplýsingar hjá finna á heimasíðu setursins; www.thekkingarsetur.is