Fjölskylduhátíð í rjómablíðu
Fjölskylduhátíð Landsbankans og knattspyrnudeildar Keflavíkur fór fram í gær framan við íþróttahúsið að Sunnubraut í Keflavík.
Fjölskylduhátíðin hófst um kvöldmatarleytið og fengu gestir grillaðar pylsur og svala. Þá var hoppukastali fyrir börnin og bauðst þeim einnig að fá andlitsmálningu. Ókeypis Keflavíkurtreyjum var dreift á hátíðinni og var unga kynslóðin rækilega merkt sínu félagi fyrir leik.
Sproti var vitaskuld á staðnum til þess að skemmta krökkunum en Bárður og Birta vöktu þó mesta lukku með söng- og gamanleik. Krakkarnir tóku vel undir með Birtu og Bárði og héldu svo glöð í bragði á nágrannaslag Keflavíkur og Grindavíkur í Landsbankadeildinni og sáu Keflavík hafa betur 2-0 í Suðurnesjarimmunni.
2007 manns voru á vellinum í gær og var skemmtileg stemmning enda kjöraðstæður til knattspyrnuiðkunar og leikurinn eftir því skemmtilegur.
Hægt er að skoða myndasafn hér hægra megin á vf.is frá Fjölskylduhátíðinni undir liðnum „Ljósmyndir“
[email protected]