Fjölskyldudagurinn í Vogum fagnar 20 ára afmæli
Fjölskyldudagurinn í Vogum fagnar 20 ára afmæli sínu í ár. Dagurinn hefur heldur betur undið upp á sig og nú er þetta orðin stór og vegleg fjölskylduhátíð sem stendur öllu jöfnu frá fimmtudegi til sunnudags.
Í tilefni af 20 ára afmælinu verður hátíðin enn veglegri en áður og mun dagskrá hennar ná yfir heila viku, þ.e. frá 8.-14. ágúst. Mikil áhersla er á fjölskylduvæna skemmtun og þar gefst kjörið tækifæri fyrir fjölskyldur og vini til að eiga góðar samverustundir og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Sem dæmi um viðburði Fjölskyldudaga má nefna: golfmót, varðeld, hverfaleika, fjölskyldudorgveiði, kassabílarallý, hverfagrill, strandarhlaup, handverksmarkað, leiktæki, bílasýningu, hverfagöngu, andlitsmálning, járnbrautarlest, söngkeppni, sápubolta, fjársjóðsleit, karamelluflug, Sirkus Íslands og flugeldasýningu auk fjölda tónlistar-, menningar- og skemmtiatriða.