Fjölskyldan hjálpast að við undirbúninginn
Anna Þóra Gunnarsdóttir fermist í Keflavíkurkirkju þann 9. apríl n.k. Hún er dóttir Gunnars Schram og Ástu Pálínu Hartmannsdóttur. Anna Þóra er elsta barn þeirra og því er þetta í fyrsta sinn sem þau standa í fermingarundirbúningi. Þau segjast þó ekkert vera neitt stressuð enda fá þau góða aðstoð frá vinum og ættingjum við undirbúninginn.Nauðsynlegt að panta salinn snemma„Segja má að undirbúningur fermingarinnar hafi byrjað fyrir um ári síðan. Við höfðum ákveðið að hafa fermingarveisluna ekki heima heldur í veislusal, eins og margir gera. Þennan veislusal pöntuðum við fyrir um ári síðan og máttum ekki vera mikið seinna á ferðinni með það“, segir Ásta.Heitir réttir og terturÞegar ferming er á næsta leyti er að mörgu að huga. Ekki er nóg að panta sal heldur þarf að útbúa veitingar, kaupa föt, ákveða skreytingar og síðast en ekki síst hverjum eigi að bjóða í veisluna. „Einungis nánustu vinum og ættingjum er boðið í veisluna. Við reiknum með að um 60-70 manns sjái sér fært að mæta. Boðið verður uppá kaffi og kökur í bland við heita rétti en fjölskyldan hjálpast að við að útbúa það. Einnig munum við vera með sérstaka fermingarköku sem kemur frá Ragnarsbakaríi. Vinkonur mínar ætla síðan að hjálpa okkur að skreyta salinn og sumar verða að vinna í veislunni“ segir Ásta og það sýnir sig að gott er að eiga góða að þegar mikið stendur til.Allir fá ný fötFjölskyldan hyggst fata sig upp fyrir fermingardaginn en Anna Þóra hefur þegar valið fermingarfötin sín í Mangó. „Fermingarmyndirnar verða teknar af Önnu Þóru fyrir ferminguna og einnig eftir ferminguna, en þá af allri fjölskyldunni saman. Sóveig í Nýmynd sér um þann þátt“, segir Gunnar. Anna Þóra verður að skarta sínu fegursta í myndatökunni og því fer hún í prufugreiðslu til Sigurbjargar Sigurðardóttur hjá Hárgreiðslustofu Harðar fyrir fyrri myndatökuna. Gunnar og Ásta gera ráð fyrir að heildarkostnaður við ferminguna og fermingarveisluna verði á bilinu 150-200 þús.kr.Ánægð með fermingarfræðslunaÞau eru sammála um að fermingarfræðaslan hafi verið með skemmtilegu sniði í vetur. Krakkarnir fóru m.a. eina helgi í Vatnaskóg ásamt presti. „Okkur finnst þetta vera af hinu góða, bæði til að auka áhuga og skilning fermingarbarna á fermingunni og skapa persónuleg tengsl milli sóknarpresta og fermingarbarna.“ Fermingin orðin dýr þjóðarsiðurGunnar og Ásta hika ekki þegar þau eru beðin um að bera saman fermingar þegar þau fermdust og í dag. „Okkur finnst helsti munurinn vera að íburður og kostnaður við fermingarveislur er töluvert mikið meiri og í raun alltof mikill. Varðandi þýðingu fermingarinnar fyrir fermingarbarnið, þá teljum við að ekki sé mikill munur á afstöðu fermingarbarna í dag til fermingarinnar miðað við fyrir 15-20 árum. Fermingarbörn virðast vera sér nokkuð meðvituð um trúarlegt gildi fermingarinnar, þó að minnihluti þeirra setji það í fyrsta sæti. Veislan, fötin og þá sérstaklega gjafirnir, virðast skipta mestu máli hjá flestum fermingarbörnum“, segir Gunnar og Ásta tekur undir. „Þau líta svo á að með fermingunni séu þau tekin í fullorðinna manna tölu. Okkar skoðun er sú að fermingarveislur virðast í dag vera orðnar einhvers konar þjóðarsiður, þar sem dýrar gjafir skipta meira máli en trúarlegt gildi fermingarinnar“, segja þau en taka skýrt fram að þau hlakki mikið til fermingardags dóttur sinnar og vonast til að dagurinn fái góðan stað í minningarbanka hennar.