Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 16. febrúar 2000 kl. 16:12

Fjölmennur fundur um þunglyndi og kvíða barna

Gríðarlega góð aðsókn var að fundi um þunglyndi og kvíða barna sem haldinn var í Njarðvíkurskóla í síðustu viku. Það voru foreldrafélög allra grunnskóla í Reykjnesbæ sem stóðu fyrir fundinum og aðalfyrirlesari var Berglind Brynjólfsdóttir, sálfræðingur, sem starfar nú hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar. Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri Reykjanesbæjar, var einnig með kynningu á hvaða þjónusta er í boði á vegum Fjölskyldu- og félagsmálaráðs og stutta kynningu á barnaverndarstarfinu. Sigríður Katrín Þorbjörnsdóttir, formaður foreldrafélags Njarðvíkurskóla, sagðist vera mjög ánægð með fundinn og að fyrirlesturinn og kynningin á starfi Fjölskyldu- og félagsmálráðs, hafi verið mjög upplýsandi og gagnleg. „Foreldrum og forráðamönnum var frjálst að koma með spurningar að fyrirlestrum loknum og þær snerust mikið um einelti, sem er greinilega ofarlega í hugum fólks“, sagði Sigríður og bætti við að samstarf foreldrafélaganna hefði verið einstaklega gott á þessu skólaári. „Það var ekkert foreldrarölt fyrir áramót og hluti skýringarinnar eru skipulagsbreytingar innan skólanna vegna einsetninganna. Við erum komin á fullt núna og foreldraröltið hefst innan skamms í samvinnu við Reykjanesbær á réttu róli.“ Sigríður sagði jafnframt að foreldrafélögin ætluðu að halda fleiri sameiginlega fyrirlestra fyrir foreldra og forráðamenn og næst yrði fjallað um aga og uppeldi en dagsetning fundarins er ekki ákveðin.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024