Fjölmenni við opnun Listasmiðjunnar
Fjölmargir lögðu leið sína upp á Vallarheiði í gær þegar Listasmiðjan - Hooby Center var formlega opnuð á árlegri frístundahelgi í Reykjanesbæ.
Listasmiðjan - Hobby Center verður til afnota fyrir menningar- og tómstundahópa í Reykjanesbæ en þar hafa ýmsir hópar nú þegar komið sér fyrir s.s. Ljósop, félag áhugamanna um ljósmyndun, Einstakir, félag tréskurðamanna sem og Félag myndlistarmanna í Reykjanesbæ en að auki hafa kórar fengið þar æfingaaðstöðu. Þá er Tölvuskóli Suðurnesja með bækistöðvar í húsinu.
Húsnæðið er um þúsund fermetrar að stærð og var byggt árið 1978. Þar var áður ýmis tómstundastarfsemi fyrir bandaríska hermenn á meðan á dvö þeirra hér á landi stóð og var reksturinn í höndum tómstundadeildar sjóhersins - húsnæðið er því sérsniðið að tómstundastarfsemi og aðstaða öll fyrsta flokks.
Boðið var upp á handverkssýningu í Listasmiðjunni sem jafnframt var sölusýning en þar sýndu m.a. félagar í Gallerý Björg og Gallerý Svarta pakkhúsið. Að auki kynntu starfsemi sína skátar, píluklúbburinn, Norræna félagið, píluklúbburinn, bíla og tækjaklúbburinn og Bifhjólaklúbburinn Ernir stillti upp bílum, tækjum og hjólum á staðnum.
Gospelkór Suðurnesja söng við opnunina og Félag harmonikkuunnenda á Suðurnesjum léku fyrir gesti.
Dagskrá frístundahátíðar fór jafnframt fram á nokkrum stöðum í bænum s.s. við Seltjörn þar sem félagar í Flugmódelklúbbi Suðurnesja sýndu listir sínar, á Risadegi í 88 Húsinu var boðið uppá brettamót, tónleika og vegglistakeppni og leikskólinn Völlur á Vallarheiði var til sýnis fyrir bæjarbúa.
Að frístundahátíðinni standa Tómstundabandalag Reykjanesbæjar, Menningarsvið og Íþrótta- og tómstundasvið Reykjanesbæjar.
Svipmyndir frá opnun Listasmiðjunnar og hjólabrettamóti í 88 húsinu má finna í ljósmyndasafninu hér á vefnum.