Fjölmenni við hátíðarhöld 17. júní í Reykjanesbæ
Sjónvarp Víkurfrétta sýndi beint frá hátíðinni í skrúðgarðinum í Keflavík
Fjölmenni sótti hátíðarhöld þjóðhátíðardagsins 17. júní í Reykjanesbæ. Hefðbundin dagskrá var í skrúðgarðinum í Keflavík. Axel Jónsson, veitingamaður dróg stærsta fána á Íslandi að húni í blíðskaparveðri og Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar setti hátíðina.
Fida Abu Libdeh, frumkvöðull, sem fædd er í Palestínu flutti ræðu dagsins og sagði að lýðræði væri ekki sjálfsagður hlutur en Íslendingar fagna því á þessum degi. „Þar sem ég er alin upp er ekkert lýðræði,“ sagði Fida m.a. í magnaðri ræðu.
Erna Hákonardóttir, fyrirliði meistaraliðs Keflavíkur í körfubolta kvenna flutti ávarp fjallkonu. Fjölbreytt skemmtiatriði voru í skrúðgarðinum, m.a. söng Jón Jónsson og þá voru flutt atriði úr ávaxtakörfunni af félögum úr Leikfélagi Keflavíkur. Kaffisala var á nokkrum stöðum í bæjarfélaginu, söfn voru opin og síðan var einnig kvölddagskrá í ungmennagarði.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í skrúðgarðinum á þjóðhátíðardaginn. Sjá fleiri í myndasafni hér að neðan.
Sjónvarp Víkurfrétta sýndi beint frá stórum hluta af hátíðinni í skrúðgarðinum. Hægt er að sjá það á Facebook síðu VF.
Skátar í Heiðarbúum tóku að venju stóran þátt í hátíðarhöldunum og settu skemmtilegan svip á þau.
Fida Abu Libdeh, frumkvöðull flutti ræðu dagsins.