Fjölmenni á sýningu í Byggðasafninu á Garðskaga
Í febrúar 2007 voru 100 á liðin frá því að fyrsti vélbáturinn var gerður út frá Suðurnesjum. Vélbáturinn Gammur RE 107 sem var 12 sml að stærð byrjaði róðra frá Sandgerði. Vegna þessara tímamóta var í dag dagskrá á Byggðasafninu á Garði, sem tengist þróun vélbáta á Suðurnesjum.
Dagskráin var afar vel sótt, en þar var farið yfir þróun vélbáta og m.a. sagt frá vélasafninu og öðru sem tengist vélbátaútgerð á Suðurnesjum auk þess sem nokkrar vélar úr safi Guðna vitavarðar voru gangsettar. Meistarinn aldni hafði að sjálfsögðu yfirumsjón með því.
Kaffiveitingar voru í Flösinni, í boði Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis og harmonikkuleikarar léku sjómannalög. Einnig var björgunarsveitin Ægir með björgunartæki á staðnum. Safnið er opið alla daga frá kl 13:00-17:00 og eru allir velkomnir
Þess má einnig geta að dagana 30. maí til 15. júní nk. verður ljósmyndasýning í anddyri Byggðasafnsins, sem heitir „Síldin á Sigló“.
VF-myndir/Þorgils