Fjölmenni á stofnfundi listatorgs
Greinilegt er að mikill áhugi er hjá listafólki að efla lista- og menningastarfsemi í Sandgerðisbæ enda var fjölmenni á stofnfundi Listatorgs, lista- og menningarfélags í bæjarfélaginu í fyrrakvöld. Vefurinn 245.is greinir frá.
Starfshópur á vegum atvinnumálaráðs Sandgerðisbæjar hefur um tíma unnið að hugmyndum sem miða að því að skapa aðstöðu til lista- og menningarstarfs. Hópinn skipa: Jón Norðfjörð verkefnastjóri, Brynhildur Kristjánsdóttir formaður ferða- og menningarmálaráðs og Guðjón Kristjánsson menningarfulltrúi.
Tilkynnt var á fundinum að fyrsti styrktaraðili nýstofnaðs félags væri Sparisjóðurinn í Keflavík með 100 þúsund króna framlagi og fékk Sparisjóðurinn mikið og gott klapp.
Í fundarhléinu skrifuðu gestir nöfn sín í fundargerðabók og urðu um leið stofnfélagar að Lista- og menningarfélagi Sandgerðisbæjar, Listatorgi.
Fleiri stofnfélagar eiga eftir að skrá nöfn sín í fundargerðabókina, en hægt verður að skrá sig á skrifstofu Sandgerðisbæjar alla virka daga frá kl. 9:00 - 16:00 fram til 5. október.
Að lokum gengu fundargestir yfir á Listatorgið, skoðuðu aðstæður og virtu fyrir sér listina hjá Nýrri Vídd og Gallerý Grýti.
Mynd/245.is: Mikill áhugi er í Sandgerði á Listatorgi, sem sjá mátti af mætingu á stofnfundinn.
www.245.is