Fjölmenni á pólskri menningarhátíð - sjáið myndirnar
„Þurfum að fara í enn stærra húsnæði með hátíðina á næsta ári,“ segir Hilma H. Sigurðardóttir, fjölmenningarstjóri Reykjanesbæjar en aðsókn var mjög mikil og ánægja með pólsku menningarhátíðina sem haldin var á Nesvöllum í Reykjanesbæ. Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála í Reykjanesbæ sagði að aðsóknin hafi verið miklu meiri en á síðasta ári þegar hátíðin var haldin í fyrsta sinn. „Við þurfum líklega að fara í enn stærra húsnæði á næsta ári,“ sagði Hilma og sagði hátíðina hafa heppnast mjög vel.
Pólskir íbúar í Reykjanesbæ komu að undirbúningi hátíðarinnar með Reykjanesbæ og buðu meðal annars upp á mikið úrval af pólskum mat sem gestir hátíðarinnar, Suðurnesjamenn og Pólverjar, tóku vel á. Gerard Pokuruszynski, sendiherra Póllands og Sveindís Valdimarsdóttir, verkefnastjóri Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, fluttu ávörp. Þá var boðið upp á fjölmörg skemmtiatriði, m.a. voru tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og þá voru atriði frá Danskompaníi og Taekwondodeild Keflavíkur. Þá var andlitsmálning í boði fyrir börnin og sjá mátti herbergi sem var útbúið eins og það væri á pólsku heimili.
Síðast en ekki síst fengu gestir að heyra í nokkrum Pólverjum sem fluttu persónulegar sögur en hlusta mátti á þær á gangi Nesvalla í stafrænni útgáfu.
Fjöldi mynda frá hátíðnni má sjá í meðfylgjandi myndasafni.