Fjölmennasta þorrablót Keflavíkur til þessa
Rúmlega 600 gestir eru væntanlegir á þorrablót Keflavíkur sem haldið verður í Íþróttahúsi Keflavíkur annað kvöld. Þetta er fjölmennasta þorrablót Keflavíkur til þessa og í þriðja sinn sem það er haldið.
Jón Björn Ólafsson, fyrrum Njarðvíkingur og körfuboltasérfræðingur að eigin sögn heldur uppteknum hætti og flytur grínannál sem hann semur. Hann hefur farið hamförum í leit að gríni og hefur gefið það út að þetta verði í síðasta skipti sem hann muni flytja slíkan pistil. Samkvæmt mjög áreiðanlegum grínheimildum VF er ekki líklegt að margir sakni pistla Jóns Björns í framtíðinni enda er drengurinn ekki mjög fyndinn.
Videoánnáll verður sýndur á skjám en þar hafa Davíð Óskarsson og félagar einnig farið mikinn í leit að gríni og glensi. Aðrir sem skemmta munu gestum eru Bjartmar Guðlaugsson söngvari og síðan en ekki síst Ingó og veðurguðirnir sem munu hjálpa fólki að hreyfa danslimi sína.
Uppselt er á kvöldið og þegar Víkurfréttir litu við var undirbúningur í fullum gangi og sjá mátti Keflvíkinga raða diskum og hnífapörum og gera salinn kláran fyrir laugardagskvöldið.