Fjöldi tók þátt í Fyrirmyndardeginum
Vinnumálastofnun stóð fyrir Fyrirmyndadeginum í þriðja sinn föstudaginn 8. apríl síðastliðinn. Að sögn Hlífar Arnbjörnsdóttur, ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun, er Fyrirmyndardagurinn mikilvægur líður í því að auka möguleika fólks með skerta starfsgetu á fjölbreyttari atvinnuþátttöku. Markmið dagsins er að fyrirtæki og stofnanir bjóði atvinnuleitendum að vera gestastarfsmenn í einn dag. Dagurinn er að írskri fyrirmynd en á Írlandi hafa samtök atvinnu með stuðningi innleitt svokallaðan „Job Shadow dag“ með góðum árangri.
„Dagurinn er frábært tækifæri fyrir fólk með skerta starfsgetu því oft er það nýtt á vinnumarkaði eða ekki búið að vera í vinnu í langan tíma. Það er frábært að fá að koma til vinnu part úr degi og sjá hvað aðrir eru að gera,“ segir Hlíf. Hún segir vinnuveitendur hafa verið viljuga að taka á móti einstaklingum í heimsókn. „Þegar dagurinn var haldinn í fyrsta sinn árið 2014 voru 11 einstaklingar hér á Suðurnesjum sem voru gestastarfsmenn. Í fyrra voru þeir 17 og núna 25 þannig að við erum alltaf að bæta við,“ segir hún.
Í lok Fyrirmyndardagsins hélt Vinnumálastofnun móttöku fyrir alla þá sem tóku þátt í deginum og var húsfyllir. Nánar verður fjallað um Fyrirmyndardaginn í Sjónvarpi Víkurfrétta á morgun. Hér fyrir neðan eru myndir úr móttökunni.
Trúbadoradúettinn Eiður Smári tók lagið í móttöku Vinnumálastofnunar.
Íris Guðmundsdóttir og Hlíf Arnbjörnsdóttir hjá Vinnumálastofnun.