Fjöldaskokk í tilefni heilsuviku
Heilsu- og forvarnarvika í Reykjanesbæ hófst á mánudaginn og lýkur næstkomandi sunnudag. Fjölbreytt dagskrá hefur verið nú í vikunni, s.s. fyrirlestrar og ráðgjöf þessu tengt.
Brenniboltamóti, sem átti að fara fram á morgun, hefur verið frestað þar sem tímasetningin stangaðist á við Íslandsmótið í greininni. Mótið verður auglýst síðar.
Í fyrramálið kl. 10 verður efnt til fjöldaskokks með Guðbjörgu Jónsdóttur og Margréti Knútsdóttur. Mæting verður á íþróttavellinum við Sunnubraut. Til stendur að skokka, hlaupa eða ganga Faxabrautina niður að Hafnargötu, niður hana og upp Aðalgötuna, inn Heiðarbrún og endað við íþróttahúsið við Sunnubraut.
Á sunnudaginn býður Vatnaveröld íbúum Reykjanesbæjar frítt í sund í tilefni Heilsuvikunnar.