Fjölbreytt og skemmtileg menningarvika í Grindavík 13.-20. mars
Í Grindavík er skemmtilegt og viðkunnanlegt fólk og heilmikið félags- og menningarstarf í boði. Hér er til dæmis kvenfélag, slysavarnarfélag, Lionsklúbbur, hjónaklúbbar og prjónaklúbbar Hér er góður kirkjukór, nokkur listagallerý og smiðjur, öflugur tónlistarskóli, danskennsla og hér er meira að segja rekið atvinnuleikhús. Reglulega eru haldnir tónleikar, bæði í kirkjunni og á veitingahúsum og svo eru haldnar ýmiskonar listasýningar allt árið um kring. Það er því ekki ofsögum sagt að hér sé öflugt menningarlíf.
Vorið 2009 var í fyrsta sinn haldin menningarvika í Grindavík. Fjölmargar uppákomur og viðburðir voru í boði og tókst ótrúlega vel til. Um 3000 manns sóttu viðburðina og var gerður góður rómur að. Í ár skal leikurinn endurtekinn og verður Menningarvika í Grindavík haldin vikuna 13.-20. mars. Á dagskránni eru yfir 40 metnaðarfull atriði, bæði á vegum heima- og aðkomumanna og verða mörg atriðanna endurtekin nokkrum sinnum. Alla daga vikunnar verður því dagskrá frá morgni til kvölds og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.
Grindvíkingar, við skulum vera stolt af því blómlega menningarlífi sem þrífst í bænum okkar, Það er ekki sjálfgefið að svo sé og margir hafa lagt mikið á sig til að blása það lífi. Vil ég því hvetja alla til að gera sér dagamun og sækja þá viðburði sem í boði eru. Einnig hvet ég ykkur til að nota nú tækifærið til að kynna bæinn okkar með því að bjóða vinum og vandamönnum að fá sér bíltúr til Grindavíkur og kíkja á menninguna hér.
Dagskrá menningarvikunnar má sjá á www.grindavik.is
Með bestu kveðju.
Kristín Gísladóttir
formaður menningar- og bóksafnsnefndar Grindavíkurbæjar