Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fjölbreytt ferðasumar á Suðurnesjum
Mánudagur 16. júní 2003 kl. 16:35

Fjölbreytt ferðasumar á Suðurnesjum

Ferðamálasamtök Suðurnesja og aðilar tengdir ferðaþjónustu á svæðinu héldu blaðamannafund sl. mánudag í Saltfisksetrinu í Grindavík þar sem kynntar voru nýjungar í ferðamálum á Suðurnesjum. Kristján Pálsson formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja kynnti helstu nýjungar og meðal annars fyrirhugað naust víkingaskipsins Íslendings sem Kristján sagði skipta miklu máli fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Kristján nefndi einnig Saltfiskssetrið í Grindavík sem opnaði í fyrrahaust og brúna milli heimsálfa.Í máli Kristjáns kom fram að fjölbreytileiki Suðurnesja hvað varðar ferðaþjónustu sé mikill og að stöðugt sé verið að ræða nýjar leiðir í ferðaþjónustu. Ferðamálasamtökin fengu nýverið styrk frá Samgönguráðuneytinu til að auglýsa ferðaþjónustu á svæðin, en ráðuneytið styrkti ferðamálasamtök víða um land með slíkum styrk.

Ýmsir aðilar tengdir ferðaþjónustu sátu fundinn og meðal þeirra var Stefán Guðmundsson frá Gokart brautinni, en á morgun verður tekin í notkun ný braut fyrir fjarstýrða bíla og er brautin sú fyrsta sinnar tegundar á landinu.

Reynir Sveinsson formaður bæjarráðs Sandgerðis og fulltrúi í stjórn ferðamálasamtaka Suðurnesja greindi frá nýjum möguleikum í gistingu í Sandgerði, en teknir hafa verið í notkun fjórir sumarbústaðir í grennd við golfvöllinn í Sandgerði.

Ferðamálasamtökin hafa í undirbúningi sérstakt átak í menningartengdri ferðaþjónustu í samvinnu við Kjalarnesprófastdæmi og menningarfulltrúa Reykjanesbæjar. Átakið byggir á því að nýta kirkjurnar á svæðinu og söguna sem tengist þeim, en þann 14. júlí verða kirkjur á svæðinu til sýnis og verður hægt að nálgast bæklinga um sögu kirknanna.

Í haust stendur til að halda sérstakan menningardag í kirkjum á Suðurnesjum, mismunandi dagskrá verður í boði í hverri kirkju fyrir sig. Dagskráin sem boðið verður upp á í kirkjunum mun tengjast sögu hverrar sóknar fyrir sig, en dagskráin er hugsuð þannig að auðvelt verði að komast á milli kirknanna og ná allri dagskránni.

VF-ljósmynd: Aðilar tengdir ferðaþjónustu sátu kynningarfundinn. Frá vinstri: Kjartan Kristjánsson frá Saltfisksetrinu í Grindavík, Stefán Barkarsson frá Reykjanesbæ, Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi Reykjanesbæjar, Björn Haraldsson úr Grindavík, Reynir Sveinsson forstöðumaður Fræðasetursins í Sandgerði, Kristján Pálsson formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja, Jón Gunnarsson alþingismaður og stjórnarmaður í samtökunum, Helga Ingunnardóttir frá Ferðaþjónustu Suðurnesja, Ólafur Guðbergsson frá SBK og Stefán Guðmundsson frá Reisbílum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024