Fjölbreytt dagskrá á Sandgerðisdögum
Sandgerðisdagar hófust í vikunni og ná hámarki um komandi helgi. Í kvöld verður diskótek fyrir yngri kynskóðina og einnig hin kunna Lodduganga, sem er víst bara fyrir fullorðna. Á föstudagskvöldinu verður svo efnt til skemmtunar fyrir unga fólkið en þar troða upp bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór og plötusnúður.
Undanfarin ár hafa íbúar Sandgerðisbæjar ekki látið sitt eftir liggja við það að skreyta bæinn sinn. Það er virkilega gaman að sjá hvernig bærinn lifnar við þegar hverfin taka höndum saman og skreyta bæinn í líflegum litum. Í ár ætti engin breyting að vera þar á.
Teikni- og ljósmyndakeppni verður á sínum stað þetta árið og þemað í ár verður Sjórinn og fjaran. Myndum í ljósmyndakeppni skal skilað á stafrænu formi á netfangið [email protected] í síðasta lagi föstudaginn 24. ágúst. Það sama gildir um teikningar en þeim skal skilað á skrifstofu Sandgerðisbæjar.
Á hafnarsvæðinu verður svo mikið líf þar sem fjöldi bása verður með ýmsan varning til sölu. Einnig verður boðið upp á svokallaða skottsölu að enskri fyrirmynd. Þar kemur fólk á bílum sínum og selur muni beint úr farangursgeymslunni.
Á laugardegi verður dagskrá alveg frá morgni til kvölds en dagurinn hefst á dorgveiðikeppni laust fyrir hádegi og á sama tíma hefst golfmót á Kirkjubólsvelli. Á hátíðarsviðinu verður nóg um að vera en þar verður m.a. sýning Bryn-ballett og Tekwondo-deildar Keflavíkur. Karamelluflugið verður á sínum stað og loks mæta Solla stirða og Íþróttaálfurinn á svæðið klukkan 15:00.
Boðið verður upp á rútuferðir um Sandgerði og nágrenni með Helgu Ingimundardóttur og Hópferðum Sævars. Hápunktur helgarinnar er svo þegar hátíðadagskrá hefst um kvöldið á laugardeginum. Þar mun efnilegt tónlistarfólk frá Suðurnesjum stíga á stokk og þeir félagar Stebbi og Eyfi sjá um að halda fólki í stuði. Hljómsveitin Í svörtum fötum verður svo með heljarinnar dansleik eftir miðnætti.
Á sunnudeginum fer svo fram Smyglaraganga í boði Fjallavina. Það er því ljóst að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í Sandgerði um helgina.
Svipmyndir frá hátíðarhöldum í Sandgerði verður hægt að sjá á vf.is.
-
-