Mannlíf

Fjölbreytt dagskrá á Menningarviku í Grindavík
Frá Menningarviku í Grindavík í fyrra.
Þriðjudagur 3. mars 2015 kl. 09:17

Fjölbreytt dagskrá á Menningarviku í Grindavík

Stendur yfir 14.- 22. mars.

Menningarvika Grindavíkur verður haldin 14.-22. mars n.k. og er nú haldin í sjöunda sinn. Dagskráin er að vanda fjölbreytt og skemmtileg þar sem vonandi finna allir eitthvað við sitt hæfi.
 
Meðal þess sem búið er að bóka í Menningarviku eru Tónleikar Jóns Ólafssonar, Af fingrum fram, með afmælisbarninu Gunnari Þórðarsyni. Sameiginlegir tónleikar með listafólki frá Grindavík og vinabænum Piteå í Svíþjóð. Fjölmenningarhátíð verður í Salthúsinu og bókasafninu og Færeyjakvöld Norræna félagsins í Grindavík.
 
Málverkasýningar Helgu Kristjánsdóttur og Pálmars Guðmundssonar verða, svo og ljósmyndasýning Tinnu Hallsdóttur. Myndasýningar, gönguferðir o.fl verða svo á vegum Minja- og sögufélagsins.
 
Glæsileg dagskrá verður í tilefni þess að konur fengu kosningarétt fyrir 100 árum. Nýtt íþróttamannvirki verður einnig til sýnis, auk tónleikar Dagbjarts Willardssonar og dagskrá Norræna félagsins.
 
Þá má nefna léttmessu, pottaspjall bæjarfulltrúa, námskeið í að skapa tónlist í snjalltækjum, matreiðslunámskeið, Siggi stormur kemur í heimsókn, fréttaskot úr fortíðinni, handavinnusýning, árshátíð bæjarins, kútmagakvöld Lions, konukvöld, blústónleikar og margt fleira sem oft langt mál yrði að telja upp hér.
 
Þá verða stofnanir í Iðu, þ.e. grunnskólinn, bókasafnið, tónlistarskólinn og Þruman með opið hús og öfluga dagskrá og þá kemur Lína langsokkur í heimsókn á yngsta stigið í grunnskólann og í leikskólana.
 
Formleg setning hátíðarinnar verður í Grindavíkurkirkju laugardaginn 14. mars kl. 17:00. Eftir setninguna er gestum boðið í safnaðarheimilið í fjölmenningarlegt veisluborð.
 
Á Menningarhátíðinni að þessu sinni verður lögð áherslu á fjölmenningu. Meðal annars var sett á laggirnar fjölmenningarráð sem skipuleggur tvo skemmtilega viðburði, ekki síst fyrir Grindvíkinga til þess að kynna sér menningu fjögurra landa að þessu sinni; Póllands, Tælands, Filippseyja og Serbíu. Þá verður kynning á rithöfundum á bókasafninu frá þessum löndum. 
 
Sem fyrr er uppistaðan í Menningarvikunni framlag heimafólks auk þess sem landsþekkt tónlistarfólk, listafólk og skemmtikraftar heimsækja Grindavík. Menningarvikunni hefur verið vel tekið undanfarin ár. Allir leggjast á eitt við að bjóða upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. 
 
Grindvíkingar um land allt og ekki síst Suðurnesjabúar eru hvattir til þess að nýta sér tækifærið og fjölmenna á menningarviðburðina. Menningarvikan er skipulögð af Þorsteini Gunnarssyni, sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs í samvinnu við frístunda- og menningarnefnd.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024