Fjögur þúsund lítra kokkteilglas á Ljósanótt
Myndlistarmaðurinn Stefán Geir Karlsson vinnur þessa dagana að smíði kokkteilglass sem tekur um fjögur þúsund lítra af kokkteil. Glasinu, sem er 3,5 metra hátt og um 2 metrar í þvermál verður komið fyrir í DUUS-húsum á Ljósanótt, en Stefán Geir verður með yfirlitssýningu á verkum sínum í Listasafni Reykjanesbæjar þar sem verður spannað yfir 25 ára listamannsferil Stefáns. Á sýningunni verða um 100 verk til sýnis, bæði skúlptúrar og málverk. Stefán Geir segir að tilgangurinn með smíði þessa stóra gripar sé tvíþættur. Upplýst kokkteilberið táknar Ljósahátíðina Ljósanótt og að innihald kokkteilglassins sé ljós en ekki áfengi. Að sögn Stefáns er ekki ætlunin að drukkið verði úr glasinu, en hann hvetur fólk til að líta glasið augum.Eins og sést á myndinni er glasið gríðarlega stórt og tekur um 4 tonn af kokkteil, en Stefán teygir sig í botn glassins.