Fjármagnar jógasetur á Karolinafund
Harpa Rakel Hallgrímsdóttir, jógakennari í Grindavík, á sér þann draum að opna jógasetur í Grindavík og hefur því hrundið af stað söfnun á Karolinafund. Markmiðið hjá Hörpu er að safna 20.000 evrum eða um 2,4 milljón króna. Harpa festi kaup á lóð í Grindavík síðasta sumar en þar sem hún er með námslán og bílalán er erfitt fyrir hana að fá lán fyrir framkvæmdum við jógasetrið. „Eins asnalegt og það er þá er það þannig að til að fá lán þarftu að eiga eitthvað, en til að eiga eitthvað þarftu að fá lán. Þannig að þrátt fyrir að það sé einstaklega erfitt fyrir mig hef ég ákveðið að biðja fólk að vera svo yndislegt að hjálpa mér að láta draum minn rætast, segir á Karolinafund.
Harpa ætlar að nota söfnunarféð til að byggja 88 fm jógasetur með aðstöðu fyrir nuddherbergi eða annars konar meðferðir. Harpa er með kennararéttindi í Hatha jóga, Kundalini jóga, Aerial jóga og krakkajóga.