Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fjallkonubúningar í eigu Reykjanesbæjar lagfærðir og yfirfarnir
Miðvikudagur 2. júlí 2008 kl. 14:48

Fjallkonubúningar í eigu Reykjanesbæjar lagfærðir og yfirfarnir

Fjallkonubúningarnir tveir, skautbúningar, í eigu Reykjanesbæjar hafa verið yfirfarnir og lagfærðir af kjólameistara og verða hér eftir í vörslu Byggðasafns Reykjanesbæjar á milli ára. Búningarnir eru notaðir á hátíðarhöldum bæjarbúa 17.júní og hefur mörgum konum hlotnast sá heiður að klæðast búningnum og flytja bæjarbúum ljóð á þjóðhátíðardaginn.

Saga skautbúningsins
Sigurður Guðmundsson málari fluttist alkominn heim árið 1858 og hófst við að teikna nýjan búning í anda þeirra klæða sem íslenskar konur höfðu notað frá upphafi Íslandsbyggðar.
Skautbúningurinn varð til á árunum 1858-1860. Elsti skautbúningurinn sem varðveist hefur var saumaður á fyrri hluta árs 1860.

Skautbúningur Sigurðar er saumaður úr svörtu klæði og skiptist í aðskorna treyju með löngum þröngum ermum og sítt pils, fellt allan hringinn með þéttari fellingum að aftan en framan. Framan á boðungum, um hálsmál og framan á ermum eru breiðir flauelsborðar með gull- eða silfurbalderuðum blómasveigum.

Neðan á pilsið er saumaður breiður blómabekkur oftast með samskonar blómum og framan á boðungum. Svartur flaueliskantur er hafður neðst á pilsinu. Saumað er í pilsið með skatteringu eða mislöngum sporum. Um hálsmál og framan á ermum er hvít blúnda, hekluð, knipluð eða orkeruð.

Við búninginn er borinn hvítur faldur á höfði og yfir honum faldblæja. Um faldinn er haft gyllt koffur eða spöng. Um mittið er stokkabelti, oftast sprotabelti.
Brjóstnál heldur treyjunni saman í hálsmáli og hnappar með lausu laufi eru oft hafðir á ermum.
Treyjan er krækt saman neðst en ókrækt yfir brjóstin og er hvítt peysubrjóst haft undir, oftast útsaumað með hvítu eða skreytt hvítri blúndu.
Við skautbúninginn er venja að nota svarta sokka og svarta skó.
Af www.buningurinn.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

[email protected]