Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fisktækniskóli Íslands kominn með nýtt heimili í Sandgerði
Fisktækniskóli Íslands er nú í húsnæði sem áður hýsti leikskólann Sólborg í Sandgerði.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 29. ágúst 2024 kl. 06:05

Fisktækniskóli Íslands kominn með nýtt heimili í Sandgerði

„Fisktækniskólinn hefur alla burði til að stækka,“ segir skólameistari Fisktækniskóla Íslands, Klemenz Sæmundsson. Skólinn hefur allan sinn starfstíma verið í Grindavík þar sem hann var stofnaður en við hamfarirnar í nóvember varð að flytja starfsemina. Eftir millilendingu á Ásbrú varð Sandgerði staðsetningin en þar sem Grindavíkurbær er stærsti eigandinn að skólanum á Klemenz ekki von á öðru en starfsemin verði flutt aftur til baka við fyrsta tækifæri.

Flutningar hafa verið í gangi í ágúst og er allt klárt til að hefja nýtt skólaár.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Blessunarlega gat Keilir hýst okkur fyrstu vikurnar en það var ansi þröngt á þingi svo við nýttum tækifærið þegar við gátum komist inn í Þekkingarsetrið í Sandgerði. Námið okkar byggist þannig upp að ein önn er tekin í bóklegu námi fram að jólum og svo er verkleg önn eftir áramót. Við kláruðum bóklega hlutann í Þekkingarsetrinu og gátum komist inn í flott vinnsluhús hér í Sandgerði og Garði til að taka verklega hlutann. Sjávarútvegsfyrirtækin hér tóku okkur opnum örmum og erum við þeim mjög þakklát fyrir. Í ársbyrjun fórum við að horfa í kringum okkur með húsnæði fyrir þessa haustönn og var bent á þetta húsnæði hér sem áður hýsti leikskólann Sólborg. Byggður var nýr leikskóli, Grænaborg, og hófst starfsemi þar fyrir stuttu og því bauðst okkur þetta húsnæði. Það vill líka svo skemmtilega til að meirihluti nemenda kemur frá Sandgerði svo þetta hentar öllum mjög vel núna.

Hvað varðar framhaldið þá á ég ekki von á neinu öðru en við færum starfsemina aftur til Grindavíkur, Grindavíkurbær er stærsti eigandinn og því eðlilegt að skólinn sé starfræktur þar. Um leið og atvinnustarfsemi verður komin á fullt sé ég ekki að neitt mæli á móti því að Fisktækniskólinn flytji sig aftur þangað. Grindavíkurbær er mjög vel varinn í dag, þetta síðasta eldgos færði sig fjær bænum svo vonandi er það versta afstaðið. Ef sú er raunin sé ég ekkert því til fyrirstöðu að uppbygging bæjarins hefjist og við hjá Fisktækniskólanum munum ekki láta okkar eftir liggja í þeim efnum.“

Skólameistarinn Klemenz Sæmundsson á skrifstofu sinni.

Nemendahópur Fisktækniskólans er tvískiptur má segja, annars vegar þau sem mæta og setjast á skólabekk, hins vegar fjarnemar víðsvegar af landinu, sem nýta sér Teams-hugbúnaðinn, það hefur gengið mjög vel að samtvinna þetta tvennt en ⅔ nemenda nýta sér fjarnámið. Klemenz hefur mikla trú á framtíðarmöguleikum skólans.

„Fisktækniskólinn hefur alla burði til að stækka, bæði er fiskeldi alltaf að ryðja sér meira til rúms og svo nýtist gæðastjórnunarnámið í öllum matvælaiðnaði. Marel-tækninámið er líka alltaf að verða vinsælla, allur matvælaiðnaður í dag nýtir sér tæknina og því hentar það nám mjög vel líka. Námið byggist annars þannig upp að fisktækninámið er tvö ár, þ.e. tvær bóklegar annir og tvær verklegar. Eftir það fer fólk annað hvort út á vinnumarkaðinn eða bætir á sig gæðastjórnun, fiskeldi eða Marel-tæknináminu. Fólk hefur líka möguleika á að gangast undir raunfærnimat ef það hefur klárað einingar í framhaldsskóla og er með starfsreynslu í greininni, þá er hægt að stytta grunnnámið og jafnvel að sleppa við það og komast beint inn á þriðja árið í sérhæfingarnámið .

Ég minni í lokin á að við verðum með opið hús milli 10 og 17 á föstudaginn þar sem við kynnum skólann,“ segir Klemenz.