Fiskbarinn og Hótel Berg vekja athygli við smábátahöfnina
Frábærar viðtökur við nýjum fisk- og grænmetisveitingastað á Hótel Bergi við smábátahöfnina í Keflavík. Bjór úr Garðinum og fiskur úr næsta nágrenni. „Höfum mikla trú á Reykjanesinu,“ segir Anna Gréta Hafsteinsdóttir, hótelstýra.
„Viðtökurnar við nýja veitingastaðnum okkar, Fiskbarnum, hafa verið mjög frábærar en Íslendingar hafa líka verið duglegir síðustu vikur að koma og gista, taka helgarfrí á Suðurnesjum,“ segir Anna Gréta Hafsteinsdóttir, hótelstýra á Hótel Bergi sem staðsett er við smábátahöfnina í Keflavík.
Hótelið var stækkað og endurbyggt að stórum hluta árið 2018 og Anna segir að viðtökur ferðamanna hafi verið mjög góðar en svo kom veiran og hafði mikil áhrif á reksturinn. „Við nýttum síðasta ár mjög vel þegar það var lítið að gera í kófinu og byggðum meðal annars nýjan veitingastað, Fiskbarinn. Veitingasal hótelsins var breytt í veitingastað. Viðtökurnar hafa farið fram úr öllum væntingum því það hefur eiginlega verið fullbókað frá því við opnuðum 15. janúar síðastliðinn,“ segir Anna.
Mikla trú á Reyjanesinu
Á hótelinu eru 36 herbergi í fimm gerðum á tveimur hæðum. Herbergin eru skemmtilega innréttuð með helstu þægindum. Heitur pottur er á annarri hæðinni fyrir miðju hóteli með útsýni yfir smábátahöfnina. Fyrir veiruna var hótelið vinsælt hjá ferðamönnum sem hafa augljóslega ekki komið síðastliðið ár en Anna er bjartsýn og segist eiga von á því að þeir fari að mæta með hækkandi sól og frekari bólusetningu. Þá sé aukin aðsókn Íslendinga ánægjuleg.
„Við höfum mikla trúa á Reykjanesinu sem ferðamannastað, fyrir útlendinga og Íslendinga sem margir eiga eftir að uppgötva það betur. Viðbrögð þeirra sem hafa farið góðan túr um svæðið eru mjög skemmtileg,“ segir Anna en aðspurð út í hönnun hótelsins segir hún að það sé í skandinavískum stíl og hlýlegt. Hótelið er svokallað „butique“-hótel og stefnan sé að vera í hópi hönnunarhótela. Þá sé staðsetningin við smábátahöfnina stórt atriði en margir gestir hafa haft það á orði og finnst skemmtilegt að njóta umhverfisins, fara í göngutúra í nágrenninu og inn í Keflavík. Hótelið hefur líka vakið athygli fyrir útlitið að utan og byggingarstílinn en það er klætt að utan með lerki.
Ólympíuverðlaunahafi
Hákon Örn Övarsson er þekktur matreiðslumeistari á Íslandi en hann hefur starfað á stöðum eins og Vox í Reykjavík og á ferilskrá kappans er m.a. 3. sæti í Bocuse d’Or sem eru nokkurs konar Ólympíuleikar matreiðslumeistara. Hann hefur líka starfað á Hótel Holti og á Michelin-veitingastaðnum Lea Linster í Luxemborg.
Fiskur og grænmeti
„Fiskbarinn er fiski- og grænmetisstaður. Við opnuðum um miðjan janúar og bjóðum af því tilefni fimm rétta ævintýramatseðil með fiski og grænmeti og bjóðum líka skemmtilega vínpörun með,“ segir Hákon Örn.
Aðspurður segir hann að mikið af hráefninu komi úr nágrenninu. „Við fáum mikið af hráefni af svæðinu, t.d. bleikjuna frá Matorku í Grindavík og þorskinn, sem er aðalrétturinn núna, úr fiskvinnslu hérna rétt hjá. Þetta er lítill og skemmtilegur staður með 30 sæti Það er gaman að vinna í svona lítilli einingu og sérstök stemmning að koma við í fiskvinnslunni hérna rétt hjá og ná í ferskan fisk. Þá er grænmeti á veitingastöðum alltaf að verða vinsælla. Það er mikilvægt að gera grænmeti áhugavert með góðu bragði og það er oft meiri áskorun en þegar maður er með fisk eða steik. Rauðrófa er til dæmis einn réttanna á matseðlinum núna en hún er bökuð í þrjár klukkustundir, söltuð og pipruð, gljáð með bláberjum og balsamikediki, valhnetur, djúpsteikt kínóafræ og karsa, birkisýróp og reykt jógurt undir gera saman á diski frábæran grænmetisrétt,“ segir meistarakokkurinn og auk hráefnis á diski gestanna er líka í boði bjór úr heimabyggð. Litla Brugghúsið bruggar bjórinn Bergið. „Við sáum viðtal við þá bruggara í Víkurfréttum og höfum samband við þá félaga því við vildum bjóða upp á bjór úr nágrenninu. Þeir sögðust eiga bjór sem héti Bergið og við gátum ekki verið heppnari,“ segir Anna.
Á Fiskbarnum eru sæti fyrir 30 manns.
Fimm herbergjastærðir eru á Hótel Bergi.
Anna Gréta hótelstýra við heita pottinn með smábátahöfnina í baksýn.
Séð inn í hluta setustofunnar á hótelinu.
Hákon Örn með bleikjuforréttinn.
Lokkandi grænmetisréttur og Suðurnesjaþorskur frá meistarakokkinum Hákoni Erni.
Heiti potturinn með útsýni yfir smábátahöfnina er vinsæll staður á hótelinu.