Fisflugið í sókn
Sléttan er heiti á félagsskap manna sem stunda flug á svokölluðum fisflugvélum. Félagið var stofnað fyrir rúmum áratug og kom sér upp góðri aðstöðu úti á Reykjanesi með flugvelli og skýli fyrir vélarnar. Jafnt og þétt hefur fjölgað í félaginu á þessum tíma, bæði frá Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu og nú byggir Sléttan nýtt og stærra flugskýli. Eldra skýlið var orðið fulllítið þannig að menn þurftu að stafla vélunum upp á hverja aðra til að koma þeim inn.
„Það fjölgar í félaginu með hverju árinu. Fisflugið er að koma sterkt inn núna sem tómstundagaman fyrir þá sem vilja ódýrari valkost heldur en að ráðast í dýrt einkaflugmannsnám. Það tekur mun skemmri tíma að öðlast réttindi á fisvél og kostar talsvert minna,“ segir Bjarni Sveinsson, Sléttu-félagi í samtali við VF. Bjarni hefur stundað fisflugið í nokkur ár og flýgur m.a. eina flugbátnum á landinu. Búkur vélarinnar er með bátalagi þannig að vélin lítur út eins og bátur með vængi.
„Þetta er mjög skemmtileg vél og gaman að lenda henni á sjó og vötnum. Maður getur þess vegna lent henni, rennt fyrir silung og tekið á loft aftur,“ segir Bjarni og hlær. Vélina hefur Bjarni átt í nokkur ár. Einnig á hann aðra vél, „Rauða baróninn“ sem er nokkuð minni en flugbáturinn, sem er í meira uppáhaldi.
En flýgur maður hvert sem er á fisi?
„Já, í rauninni getur maður það. Einu takmörkin eru þau að við erum bundnir ákveðnu hólfi í loftrýminu hér í kringum Keflavíkurflugvöll. Ef við ætlum út úr því þurfum að láta vita af okkur. Það hefur ekki verið neitt vandamál og samvinnan við Flugmálastjórn hefur alltaf verið mjög góð“
En hvað kostar að koma sér upp fisvél?
„Ágæt vél er einhvers staðar á bilinu 2 – 3 milljónir þannig að fjárfestingin er nokkur í byrjun. Ef menn vilja vera flottir á því er hægt að fara í vél sem slagar hátt í gott jeppaverð. Það líka hægt að fara hægt í sakirnar, byrja á 5-600 þúsund króna tæki og fara í eitthvað stærra seinna þegar menn vilja meira pláss og meiri hraða,“ svarar Bjarni.
Aðspurður segir Bjarni nokkuð um það að menn setji sjálfir saman fisvélar.
„Menn hafa verið að smíða þetta og kaupa „kit” frá Bandaríkjunum sem þeir setja svo saman hérna heima. Það er líka hluti af sportinu, líkt og t.d. með jeppamenn sem breyta bílunum sínum sjálfir í fjallatröll. Það fylgir því ákveðin ástríða,“ segir Bjarni.
Efsta mynd: Bjarni við flugbátinn góða, þann eina á landinu.
Horft út um gluggann á flugbáti Bjarna yfir Höskuldarvöllum. Þarna sést til Trölladyngju og Grænudyngju.
Félagið stendur nú fyrir byggingu nýs flugskýlis á Reykjanesi. Það eldra var orðið of lítið, enda fjölgað í félaginu ár frá ári.
Flugfélagið Sléttan hefur undanfarin ár staðið fyrir hópflugi yfir Reykjanesbæ á Ljósanótt. Í flugflotanum sem sést þá yfir bænum kennir ýmsra grasa. Hér flýgur Bjarni Rauða Baróninum yfir húsþökunum í Keflavík.
VFmyndir/elg.