Finnst Andrea Róberts skemmtileg í klæðaburði
Guðrún Reynisdóttir, betur þekkt sem Rúna, rekur verslunina Gallery við Hafnargötuna. Hún hefur í gegnum tíðina aðstoðað marga við fatakaup sín og er vitaskuld sjálf alltaf fín í tauinu. Víkurfréttir lögðu nokkrar léttar fyrir tískudrottninguna sem er ekki enn búin að ákveða hverju hún muni klæðast á gamlárskvöld.
Hvernig myndir þú lýsa fataskápnum þínum?
Mjög fjölbreyttum.
Áttu kannski fleiri en einn fataskáp?
Nei bara einn.
Hver er uppáhalds flíkin þín?
Engin ein sérstök en hef alltaf verið veik fyrir gallabuxum og jökkum.
Áttu einhverja flík(ur) sem saga er á bak við?
Nei, jú kanski kjólinn sem ég notaði í ungfrú Ísland um árið (mjög hallærislegur í dag).
Hver eru þægilegustu fötin þín?
Strigaskór, gallabuxur og bolur. Fyrir utan náttbuxur og bol.
Af hverju detta gallabuxur aldrei úr tísku?
Því þær eru sígildar og fjölbreyttar (alveg hægt að eiga nokkrar) og ekki síður nauðsynlegar.
Hverjar eru best klæddu konurnar á Suðurnesjum að þínu mati?
Það eru margar konur á Suðurnesjum vel klæddar að mínu mati, þá meina ég eftir týpum og smekk hvers og eins. En ef ég nefni kannski eina þá hefur mér alltaf fundist Þórunn á Fasteignasölunni Ásberg ein af þeim.
Hverjir finnst þér vera best klæddu karlmennirnir á Suðurnesjum?
Sama á við karlmennina á Suðurnesjum, þó það poppi ekki einhver sérstakur upp hjá mér núna. Mér hefur alltaf fundist við hér á Suðurnesjum fylgjast vel með tísku í einu og öllu.
Hver er best klæddi Íslendingurinn?
Mér finnst Andrea Róberts mjög skemmtileg í klæðaburði, týpa eins og hún er.
Hvernig er áramótatískan í ár?
Það er ekki eitthvað eitt sérstakt. En glamor er alltaf í einhverju formi á gamlárskvöld. Það er hægt að vera glamor í svo mörgu allt frá gallabuxum í síðkjól. Bara hvað hentar hverjum, það er svo margþætt hvað fólk er að fara á gamlárskvöld.
Í hverju ætlar þú að vera á gamlárskvöld?
Ég veit það ekki. Hef nú ekki fengið mér neitt sérstakt fyrir gamlárskvöld.
Er nú yfirleitt bara í rólegheitum heima með börnin. Finn kannski eitthvað í fataskápnum, púsla einhverju saman.
VF-mynd/ Jón Björn
[email protected]