Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagsvals: Draumur í dós
Laugardagur 14. janúar 2012 kl. 14:57

Fimmtudagsvals: Draumur í dós

Öll eigum við okkur drauma að hætti ABBA flokksins. Við lifum í trúnni að bráðum birti til á bæjunum og blessunarlega er þráin ekki skattlögð. Ennþá. Sumir draumar rætast, aðrir liggja í láginni og dorma. Flesta dreymir um skjótfengin auðæfi, nánast eins og þau falli af himnum ofan í faðminn breiða. Einhverjir spila í happdrætti og finnst löngu tímabært að þeirra tími sé kominn. Lottóið, Háskólinn, SÍBS, DAS og hvað þetta heitir nú allt saman. Góðra gjalda vert að styrkja málstaðinn, en svo koma bara réttu tölurnar alls ekki. Er orðinn leiður á að vera með númerið við hliðina á þeim heppna. Hundfúlt, en þori ekki að hætta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Það er ekki um annað að ræða, en taka „secret-ið“ á þetta allt saman. Minn draumur er að losna undan klafa auðvaldsins, sem glottir með vísitölusvip á híbýlin og rukkar eins og ræningi í Kardimommubæ. Réttast væri að senda Soffíu í seðlagryfjurnar, ja fussum svei og fussum svei! Ætla mér nú að snúa þessari hringavitleysu við og létta á klafanum. Vísa löngutöng og vísifingri með taktföstum hreyfingum frá augntóftum að Ægishrammi! Stend ekki í frekari dáleikum við þessa andskota.


Leyndarmálið mitt er að eignast lítinn kofa við litla laut sem hjá rynni spræna. Alveg eins og hjá Ólafi, nema hvað minn yrði smærri í sniðum en hans. Fjallahringurinn á að blasa við í fjarska og angan af vorinu á að berast til mín úr iðrum jarðar. Lóukvakið úr túninu yrði merki um lífsins endurleik. Já, framundan eru breyttir tímar og brakið í óbreytanleikanum ómar í hugarfylgsnum sálarinnar. Þráin er mér náin og nú verður ekki aftur snúið.


En hvað verður svo umleikis, þegar allt er orðið hljótt. Frúin mun una sér við sína eftirlætisiðju og ég mun sitja við skriftir og hvíla angurvær við gluggatóft. Hugleiða síðan með undrunarsvip hvað það var, sem hélt aftur af mér, að láta drauminn rætast. Hafa látið þrána þrána og umfram allt, að hafa horft í baksýnisspegilinn löngum stundum, þegar allt þar, var og kemur ekki aftur. Blessuð sértu sveitin mín!