Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimm uppáhaldsplötur Inga Þórs Ingibergssonar
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 12. júní 2020 kl. 17:12

Fimm uppáhaldsplötur Inga Þórs Ingibergssonar

Ingi er hljóðmaður í hljóðverinu Lubba Peace sem hann og eiginkona hans, Anna Margrét Ólafsdóttir, eiga og reka saman. Lubbi Peace er samt miklu meira en hljóðver eins og segir á heimasíðu þeirra:

„Lubbi Peace er bakhús í Keflavík sem hjónin Ingi Þór og Anna Margrét eiga. Þetta er ekkert venjulegt bakhús því þar gerast galdrar þegar saman koma skapandi einstaklingar og búa til tónlist, skrif og skraf.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ingi Þór hefur ástríðu fyrir tónlist og hér veitir hann lesendum Víkurfrétta innsýn í hvaða plötur hafi haft einna mestu áhrifin á hann.

Crosby Stills Nash & Young: Deja Vu

Þessi hefur haft gífurleg áhrif á mig. Það er eitthvað magic á þessum upptökum! Lög eins og Teach Your Children, Woodstock, Our House og mitt allra uppáhalds ... Almost Cut My Hair.

Ég eeegna þessa plötu!

Coverið er mjög áhugavert en ljósmyndarinn myndaði félagana með aldargamalli myndavél þar sem myndin frá linsunni er brennd á einhverskonar málmplötu. Þeir þurftu að vera graaaafkyrrir í heilar tvær og hálfa mínútur. Ekki er hægt að halda brosi í svo langan tíma. Þessa vegna eru allir svona grafalvarlegir á myndum teknum átján hundruð og eitthvað.

En alla vega ... ljósmyndarinn var með backup-myndavélar sem hann smellti af nokkrum myndum á meðan þeir sátu og stóðu grafkyrrir. Á einu augnabliki rölti hundur nágrannans fyrir framan þá, staldraði við og hélt svo ferð sinni áfram.

Þeir enduðu með að velja þá mynd vegna þess að út frá málmplötunum var ekki hægt að framkalla nægilega skarpa mynd.

Sepultura: Chaos AD

Fimmtán ára í bæjarvinnunni með vasadiskó í vasanum og þessa snilld á kasettu-repeat. Þessi metall hafði djúpstæð áhrif á mig eins og svo marga aðra. Þetta er masterpiece!

Ég hlustaði svo oft á þessa plötu þegar ég vann stærðfræðiverkefni fyrir skólann. Einhverra hluta vegna hélt ég 100% einbeitingu þegar ég hlustaði á þungarokk.

Muse: Showbiz

Ég man það eins og það hafi verið gær, stundina þegar ég heyrði Muscle Museum í fyrsta skiptið ... nítján ára í eldhúsinu á Séstvallagötunni, útvarpið í gangi og lagið búið að ganga í nokkrar sek ... Ég sperri eyrun og heyri strax að þetta er meistaraverk ... Stend upp á stól, legg smettið þétt við útvarpið og hækka í botn ... Ég öskra af geðshræringu ... mér fannst þetta svo geggjað.

True Story :-D Rosaleg plata!

Nirvana: Nevermind

Tímamótaplata!! Þessi plata breytti öllu! Eins og Michael Jordan fyrir NBA þá breyttu Kurt Cobain og félagar tónlistinni í níunni, tónlistarsvamp áratug kynslóðar minnar.

Þeir líka gátu ekki verið heppnari með að fá upptökustjórann Butch Vig til að taka upp plötuna. Hann tók tónlistina þeirra og hjálpaði til við að gera þessi lög ódauðleg með geggjuðu Soundi og góðu mixi. Butch fékk meira að segja Kurt til að dobbla sönginn sinn sem hann hafði aldrei verið til í. Fullkomið samstarf.

Fleetwood Mac: The best of Peter Green’s Fleetwood Mac

Peter Green er að mínu mati besti gítarleikari allra tíma og Fleetwood Mac er mögnuð hljómsveit. Það er svo mikil tilfinning í spilamennskunni hans að það getur fengið mig til að fá sand í augun. Albatross er besta instrumental-lag allra tíma og Shake Your Money Maker með þessum eðaldúddum er bara eins og blúseyrnakonfekt.

Sorglegt hvernig fór fyrir Peter snemma í sjöunni í Þýskalandi. Klikkaðist af LSD-notkun og varð aldrei samur aftur. Hann tók aftur upp gítarinn seinna en komst að mínu mati aldrei með tærnar þar sem hann var með hælana i Fleetwood Mac.

Þessi plata rammar inn allt það besta frá Peter Green-tímabili Fleetwood Mac.