Fimm snjöll: Gleyminn hugaþjálfari
Daníel Guðni þjálfari Njarðvíkur með fimm gagnleg öpp
Körfuboltaþjálfarinn Daníel Guðni Guðmundsson notast mikið við tæknina í starfi sínu. Hann er mikið að vinna með hugarþjálfun og andlegu hliðina í þjálfun enda með meistaragráðu í íþróttasálfræði. Við fengum hinn nýráðna þjálfara karlaliðs Njarðvíkur til þess að deila með okkur þeim öppum sem hann notar hvað mest.
TED
Ég hef mjög gaman af því að hlusta á fræðandi fyrirlestra, um allt á milli himins og jarðar, og nóg er af þeim hjá TED. Það helsta sem ég hlusta á og leita af er tengt hugarþjálfun og hvaða hluti einstaklingar geta tileinkað sér til að ná árangri í sínu lífi og upplifa hugarró.
Kindle
Þótt ég eigi ekki Kindle lesbretti þá er Kindle appið á app store ótrúlega gott. Gaman að geta keypt bækur, hvenær sem er, og byrjað að lesa strax. Þó svo að það sé skemmtilegra að eiga þær í kilju eða öðru formi þá notast ég mikið við Kindle, sérstaklega ef ég hef ekki tíma til þess að bíða!
Whatsapp
Sniðugt og rótgróið app sem auðveldar mér að vera í sambandi við félaga mína og vini sem búa erlendis. Lykilatriði í símanum mínum.
XPS Network
XPS frá Sideline Sports nota ég alfarið í minni þjálfun. Með hugbúnaðinn í tölvunni klippi ég leikina og set upp æfingar. Með appið í símanum og spjaldtölvunni, get ég einnig búið til tímaseðla, sett inn athugasemdir sem ég þarf að huga að fyrir liðið og svo framvegis. Algjörlega ómissandi fyrir mig.
Reminders/Calendar
Þetta er standard búnaður í öllum símum. Ég hef eitthvað verið að leita að öðrum svipuðum öppum í gegnum tíðina en þetta er í raun það þægilegasta sem ég hef komist í tæri við. Þar sem ég er nokkuð gleyminn, sérstaklega samkvæmt konunni, þá skrái ég í Reminders mörgum sinnum á dag. Hvað ég þarf að gera í dag eða á morgun, eða aðrir mikilvægir hlutir sem þurfa að gerast á komandi dögum. Ef ég er ekki með neitt skráð fyrir morgundaginn, þá er mjög líklegt að ég hafi gleymt að skrá það niður!