Fimm félagar gengu frá Fagradalsfjalli til Selfoss
Lentu í kríuárás á leiðinni. Vilja taka lengri göngu næsta sumar.
Fimm ungir og vaskir herramenn frá Reykjanesbæ tóku sig saman í sumar og gengu frá Fagradalsfjalli við Grindavík til Selfoss. Þeir hafa verið að ganga undanfarin ár, gengu víða um Suðurnesin í fyrra og fóru lengst frá Reykjanesbæ til Hafnarfjarðar en í sumar ákváðu þeir að láta slag standa og fara í tveggja daga gönguferð austur á Selfoss.
Fimmmenningarnir eru Dominque Baring sem er frá Filipseyjum en hefur búið lengstan hluta ævi sinnar á Íslandi, Maksym Matrionin sem er frá Úkraínu og Íslendingarnir Karl Dúi Hermannsson, Benedikt Máni Möller og Nói Gunnarsson. Faðir Nóa, Gunnar Már Másson, var trúss í ferðinni og keyrði með fellihýsi í eftirdragi auk þess að vera með nesti og orku fyrir göngugarpana.
Eldgos daginn eftir
Segja má að Nói sé fyrirliðinn í hópnum, það var hann sem fékk fyrstur áhuga á göngu og dró félaga sína með sér. „Við höfum verið duglegir að ganga undanfarin ár og ætluðum okkur fyrst að labba frá Reykjanesbæ en ákváðum svo að nóg yrði að byrja við Fagradalsfjall í Grindavík. Á þessum tíma voru miklar líkur á að eldgos væri að hefjast og það kom á daginn, nokkrum dögum eftir að við lögðum í hann byrjaði að gjósa. Við vorum mjög heppnir með veður báða dagana, gátum skoðað náttúruna vel og svo ákváðum við að lengja leiðina fyrri daginn og gengum að Hlíðarvatni, mjög fallegur staður. Við vorum orðnir þreyttir svo við fórum með pabba til Þorlákshafnar þar sem við settum fellihýsið upp, fengum okkur að borða og sofnuðum svo þreyttir eftir langan dag.“
Þegar búið var að snæða morgunmat og fylla skrokkinn af orku, keyrði Gunnar Má göngugarpana aftur að Hlíðarvatni og þar lögðu þeir í hann. Þessi ganga þeirra hafði spurst út og þegar þeir komu að Þorlákshöfn, var fjöldi fólks sem veifaði þeim og bílar notuðu flautuna óspart. Telma Rut Eiríksdóttir kennir nokkrum þeirra í FS og gerði sér ferð og fékk „sjálfu“ með hetjunum og eins átti þjálfarinn þeirra í Taekwondo, Helgi Rafn Guðmundsson leið hjá og hvatti þá áfram. Nói var ánægður með móttökurnar. „Þetta var mjög gaman og gaf okkur aukakraft. Við gengum síðan meðfram fjörunni í áttina að Eyrarbakka og komum að veitingastaðnum Hafinu bláa. Þar var mikið af kríu og þær voru ekki ánægðar með þessa heimsókn okkar og steyptu sér á fullu að okkur og greyið Max sem hafði aldrei séð kríur í Úkraínu, var ansi gáttaður en við gátum hlegið að þessu þegar við héldum áfram. Þegar við nálguðumst Selfoss um kvöldið voru sumir okkar orðnir ansi þreyttir. Ég og Kalli vorum sennilega minnst þreyttir og hjálpuðum hinum og það var frekar fyndið þegar Benedikt lá á göngustígnum, nánast búinn á því að þá stoppuðu bílar til að athuga hvort allt væri í lagi. Þessa helgi var bæjarhátíð í gangi á Selfossi, Kótilettan, og talsverð drykkja á ungmennum svo sumir héldu kannski að við værum fullir en við erum allir bindindismenn á áfengi og tóbak. Það var æðislegt að komast á leiðarenda eftir miðnætti, sólin var falleg, lág á lofti og við verðlaunuðum okkur með því að fara í pylsuvagninn, pulsan bragðaðist sko vel! Pabbi keyrði okkur svo heim, klukkan var um þrjú þegar ég sofnaði þessa nótt, sæll og glaður.
Við stefnum á að ganga út í Hafnir fljótlega og svo er spurning hvað við gerum næsta sumar. Ég myndi vilja skipuleggja lengri göngu en þegar við fórum á Selfoss en við munum pottþétt ganga eitthvað,“ sagði Nói.
Falleg samstaða
Að ganga er ekki eina áhugamál Nóa, hann æfir Taekwondo af kappi og rennir sér á hjólabretti. „Ég er búinn að æfa taekwondo í nokkur ár og svo hef ég mjög gaman af hjólabrettum. Þegar inniaðstaðan var í 88 húsinu, gátum við stundað þessa íþrótt af kappi en því miður er búið að leggja það niður svo við þurfum að fara í önnur bæjarfélög í dag til geta rennt okkur við góðar aðstæður. Ég hef átt samtal við bæjarfulltrúa um að gera svona aðstöðu aftur hér í Reykjanesbæ, ég vona að það muni gerast fljótt.“
Gunnar Már var ánægður með þetta framtak sonar síns og félaga hans. „Ég sé ofboðslega fegurð í þessu hjá þessum ungu strákum, hvernig þeir tóku sig til, skipulögðu ferðina og létu svo bara vaða. Samstaðan hjá þeim er svo falleg, þegar einhver var orðinn þreyttur á göngunni, komu félagarnir til hjálpar og báru hann. Þeir hugsa mikið um heilsuna, eru mjög reglusamir. Þetta er fallegur vinskapur sem þeir hafa þróað með sér í gegnum Taekwondo, hjólabretti og nú göngur. Það verður spennandi að sjá hvað þeir ætla sér næst,“ sagði Gunnar að lokum.
Frá vinstri: Karl, Nói, Benedikt (krjúpandi), Dominique og Max
Strákarnir hittu kennarann sinn úr FS, Telmu Rut Eiríksdóttur.