Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimm ára á fund bæjarstjóra
Fimmtudagur 26. júní 2003 kl. 09:48

Fimm ára á fund bæjarstjóra

-krafðist þess að bæjarstjóri hringdi strax í vinnumennina

Guðný Hanna Sigurðardóttir, fimm ára Keflvíkingur er svo sannarlega ákveðin ung stelpa, en á dögunum pantaði hún fund með bæjarstjóra þar sem hún vildi láta laga göngustíg þar sem hún hefur oft dottið.
Göngustígurinn liggur á milli Greniteigs og Birkiteigs en Guðný Hanna notar þennan stíg þegar hún fer til vinkvenna sinna sem búa á Birkiteignum. Eins og áður segir hefur Guðný Hanna dottið nokkrum sinnum á göngustígnum sem er mjög ósléttur og varasamur. Fyrir stuttu kom hún öskureið heim með tárin í augunum og hruflaða olnboga og var með nýlega plástra á báðum hnjám og setti hnefann í eldhúsborðið og sagði við mömmu sína að nú væri nóg komið og hún vildi segja bæjarstjóranum að þennan stíg ætti að laga. Mamma hennar hjálpaði henni við erindisgerð og teiknaði svo Guðný mynd af stígnum eins og hún vildi láta hann líta út.Guðný Hanna pantaði tíma hjá bæjarstjóra og mætti þar á tilsettum tíma með tvíburabróðir sínum Gulla og stóra bróðir Hafþóri með erindið, en þeir veittu henni andlegan stuðning í þessari hólmgöngu.
Máli sínu til stuðnings sýndi hún bæjarstjóra hruflaða olnboga, hné og skarð í tönn. Kom Guðný víða við í málflutningi sínum og útskýrði fyrir bæjarstjóra teikninguna af stígnum og kom með tillögur til úrbóta.
Þegar hún hafði lokið máli sínu sagði bæjarstjóri að við þessu yrði að bregðast. Svaraði þá Guðný að bragði. „Þú verður þá að tala við vinnumennina.“
„Já satt segirðu,“ svaraði bæjarstjóri og tók upp síman og hringdi í vinnumennina.



Víkurfréttir litu í heimsókn til Guðnýjar Hönnu og bræðra hennar þar sem þau voru að leika sér á Greniteignum. Það var nóg að gera hjá þeim og ljóst að þau sitja ekki auðum höndum, enda hefur Guðný Hanna sýnt að hún drífur í hlutunum.


Af hverju fórstu til bæjarstjórans?
Út af því að maður er alltaf að detta þarna.

Hringdirðu og pantaðirðu bara tíma?
Já og afi minn kom með mér og bræður mínir.

Ertu búin að detta oft þarna?
Soldið.

Meiddirðu þig síðast?
Já dáldið.

Hvað sagði bæjarstjóri þegar þú komst til hans?
Að það verði að laga hann.

Og ætlaði hann að láta laga hann strax?
Já. Hann bara hringdi strax í þá [vinnumennina].

Fannst þér það ekki flott?
Jú.

Ætlarðu að fylgjast með því að vinnumennirnir lagi göngustíginn?
Já, ef ég hef tíma.

Víkurfréttir fengu það staðfest hjá Árna Sigfússyni bæjarstjóra Reykjanesbæjar að göngustígurinn yrði lagfærður mjög fljótlega. Bæjarstjóri sagði að heimsókn Guðnýjar hefði verið mjög ánægjuleg og það væri verulega gaman þegar ungir íbúar Reykjanesbæjar kæmu til að hitta sig.

Hér má sjá myndasyrpu frá fundinum með bæjarstjóra og myndir af vinum og bræðrum Guðnýjar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024