Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fílnum vísað úr herberginu
Olga Björt Þórðardóttir.
Sunnudagur 16. febrúar 2014 kl. 08:00

Fílnum vísað úr herberginu

- Ritstjórnarleiðari.

Í hugtakaforða er stundum talað um fílinn í herberginu. Er þá átt við augljóst risavaxið vandamál sem ómögulegt er að horfa fram hjá, en margir kjósa að gera það og velta sér frekar upp úr smærri atriðum sem koma fílnum ekki við.

Ein manneskja og allt upp í stóran hóp fólks getur verið þátttakandi í að hunsa fílinn, þótt hann sjáist jafnvel langar leiðir. Stundum gengur fíllinn í erfðir og þá er nýjum kynslóðum kennt að hunsa hann líka. „Hann hefur alltaf verið þarna og ekki ætla ég að reka hann út!“ Fíllinn er í raun stóra tregðan við að takast á við raunveruleg vandamál, líta í eigin barm og sjá sinn þátt sem stjórnanda eigin lífshamingju og áhrif á samferðafólk.

„Markmiðið var ekki að breyta öðrum heldur breyta mér,“ segir Þórarinn Ingi Ingason, þyrluflugstjóri og kennari, í einlægu viðtali við Víkurfréttir. Hann sneri við blaðinu þegar hann fór í áfengismeðferð 27 ára gamall og gjörbreyting varð á lífi hans í kjölfarið. Draumar hans rættust og ýmislegt gott leiddi af öðru. Eins og hann segir sjálfur frá fór hann að sjá nýja hluti frá nýjum sjónarhornum. „Í rauninni lærði ég loksins á sjálfan mig því myndin sem ég hafði af mér áður var kolröng.“

Þórarinn segir einnig að alkóhólismi sé alvarlegur sjúkdómur sem hefur mikið með hugarástand að gera og hafi mikinn eyðileggingarmátt. „Sá sem er haldinn þessum sjúkdómi er bæði gerandi og þolandi. Sem þolandi sækir maður í þetta breytta og brenglaða hugarástand sem fylgir þessu og það er erfitt fyrir þann sem þekkir ekki sjúkdóminn að skilja hvers vegna alkóhólistinn hættir ekki bara að drekka.“

Sem betur fer hefur viðhorf til þessa sjúkdóms breyst mikið á undanförnum árum. Þekking og viðurkenning almennings á sjúkdómnum hefur oft mikið að segja um það hvort fólk leitar sér hjálpar. „Í stjórnleysi kennir maður utanaðkomandi þáttum um óhamingju sína og vanlíðan. Orsakavaldurinn er oftast innra með manni,“ segir Þórarinn. Hann tók þá ákvörðun að viðurkenna tilvist fílsins - og vísa honum út.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024