Mannlíf

Fíknin er sjúkdómur sjálfselskunnar
Föstudagur 2. nóvember 2018 kl. 11:41

Fíknin er sjúkdómur sjálfselskunnar

 
Saga Elfars Þórs er því miður saga allt of margra ungmenna af Suðurnesjum. Ungt fólk sem leiðst hefur út í neyslu og misnotkun á vímuefnum. Vandamálið er landlægt. Elfar á ellefu innlagnir á Vog að baki ásamt öðrum meðferðarúrræðum. Hann byrjaði að nota áfengi um fermingaraldur og eftir það fór snjóboltinn að rúlla. Hann fór að heiman sautján ára gamall og átti ekki heimili að kalla næsta tæpa áratuginn. Hann hefur horft upp á marga vini sína taka eigið líf. Fjölskylda hans hefur borið þunga byrði sökum lífernis hans og nú burðast hann með að fyrirgefa sjálfum sér. Það er nefnilega ekki svo auðvelt að verða edrú og takast á við afleiðingar og dóma samfélagsins.
 
„Ég var einmitt að fá upp minningu á Facebook þar sem ég var að minnast vinar míns úr Grindavík sem hafði tekið sitt eigið líf. Það var þá fimmti vinur minn á þriggja mánaða tímabili sem hafði farið þá leið,“ segir Njarðvíkingurinn Elfar Þór Guðbjartsson rétt eftir að hann settist niður með blaðamanni. Hann hefur verið allsgáður í rúm tvö ár en þó hefur margt breyst síðan hann hætti neyslu. „Ég er að lesa um að fólk sé að nota krakk og auk þess sem fólk er að sprauta sig með þessum sterku verkjalyfjum. Félagi minn var í strætó um daginn þar sem krakkar á fermingaraldri voru að tala um það að taka fyrsta skotið sitt [innsk. blm. skot er þarna notað í merkingunni að sprauta sig]. Hvað það var geggjað og hvar þeir fengu oxycontin.“

Kvikmyndaskólinn var líflína

Elfar hefur sagt sögu sína í Njarðvíkurskóla, þaðan sem hann náði varla að útskrifast. Hann hefur áhyggjur af rammanum og hefur orð á því þegar myndatökumaður VF stillir honum upp, hvernig hann komi út í mynd og hvað mamma muni segja um þetta allt saman. „Kvíðinn, hann hverfur nefnilega ekki,“ segir Elfar sem hefur fundið köllun sína í kvikmyndagerð. Kvikmyndaáhuginn kviknaði fyrst þegar Elfar sá mynd Oliver Stone um The Doors. „Ég grínast oft með það að ég misskildi kannski hvað heillaði mig myndina, það var kannski ekki stíll leikstjórans.“ Elfar var alltaf heillaður af bíómyndum sem barn en grunaði aldrei að hann færi að skapa sínar eigin. „Raunveruleiki minn í dag var fjarstæðukenndur draumur þegar ég var sextán ára gamall. Þegar maður talaði um að gera kvikmyndir á þeim tíma var manni sagt að hafa raunhæfa drauma.“
 
„Það tók mig mjög langan tíma að uppgötva sjálfan mig og átta mig á því hvað það var sem ég vildi fá út úr lífi mínu. Ég var rosalega týndur í mörg ár,“ segir Elfar sem fór í sína síðustu meðferð 28 ára gamall. Margoft hafði hann reynt að verða allsgáður. Hann spurði sjálfan sig að því hvað hann ætlaði að gera öðruvísi í þetta skipti. „Ég fór að hugsa til baka. Hver var ég fyrir þetta allt saman? Þá var það kvikmyndaáhugamaður. Þegar ég var út á sjó var ég sá sem svaf bara þrjá tíma á vaktinni því ég vildi nýta tímann til þess að horfa á bíómynd.“
 
Leiðin var ekki svo auðveld í Kvikmyndaskóla Íslands en þangað stefndi Elfar. „Ég var að sækja um í skólann og á því augnabliki fór síminn minn að hristast. Þá var það minning á Facebook um vin minn sem lést árið 2011. Sameiginlega áhugamál okkar voru einmitt kvikmyndir. Það var þá sem ég vissi að ég væri að fara að komast inn í skólann, að hann væri með mér.“ Elfar er svo boðaður í viðtal í skólanum. Kröfur skólans eru að hafa lokið stúdentsprófi. „Það er varla hægt að segja að ég hafi klárað grunnskóla. Ég man eftir því að hafa bara skrifað nafnið mitt á prófið og svo beið ég bara eftir því að tíminn kláraðist. Þeir í skólanum spurðu mig svo af hverju ég hafi ekkert verið í skóla og hvað ég hafi verið að gera frá fimmtán ára aldri. Á þessu augnabliki þurfti ég að vera heiðarlegur og ég útskýrði fyrir þeim að ég hafi átt við fíkn að stríða í lífi mínu. Núna væri ég að sækjast eftir því lífi sem ég hafði þráð frá upphafi. Þeir kunnu svo mikið að meta heiðarleika minn og þá sköpunargleði sem ég bý yfir. Daginn eftir var mér boðið að koma í skólann. Ég lofaði sjálfum mér að verða þeim ekki til skammar,“ en Elfar útskrifaðist nú í sumar.
 
„Skólinn varð líflína mín. Þetta var staður þar sem ég var ekki dæmdur fyrir fortíð mína. Þetta var staður þar sem mér var fagnað fyrir að nýta söguna og sækja þangað innblástur til þess að skapa. Þetta er ekki fallegt líf. Þér líður aldrei vel þar sem þú ert í stöðugu ástandi að reyna að deyfa þig. Loksins að geta nýtt allan þann sársauka til þess að skapa.“
 
Ýmsar áskoranir biðu hans þegar námið hófst. „Ég þurfti að læra að stafsetja og skrifa upp á nýtt. Fyrstu handritin mín voru full af villum.“ Elfar segist hafa upplifað niðurlægingu þess vegna. „Það er alltaf skömm. Ég var alltaf að afsaka eitthvað sem ég sendi frá mér. Aldrei hélt ég fyrir mitt litla líf þegar ég var í íslensku í gamla daga, að ég myndi vera síðar að skrifa Zombie-víkingamynd um Ingólf Arnarson að rísa upp frá dauðum,“ segir Elfar og hlær en hann er einmitt með slíkt handrit í farvatninu.
 
Um þrettán ára aldur var Elfar byrjaður að drekka reglulega og neyta vímuefna fimmtán ára gamall. „Ég held að þarna hafi ég haft lítið sjálfsmat. Þegar maður byrjar að drekka þá er maður allt í einu þessi fyndni og skemmtilegi, þegar þú varst kannski í raun kvíðinn og alls ekki viss með sjálfan þig á meðan þú varst edrú. Sama hvað hver segir, þá er þetta líka töffaraskapur. Ég byrjaði ekkert að reykja af því að mér fannst það gott,“ bætir hann við.

En hann er svo góður strákur

„Ég sat á tali við mann um daginn sem sagði mér að honum hefði þótt það svo undanlegt að ég hafi farið þessa leið, þar sem ég var svo góður strákur. Hvernig gat ég hafa leiðst út í þetta? Það hefur í raun ekkert með þessa hluti að gera hver leiðist út í þetta. Þetta er á öllum stöðum og stéttum í þjóðfélaginu. Fimmtán ára gamall var ég búinn að gefa skólagöngu mína upp á bátinn og farinn af vinna til þess að fjármagna eigin neyslu. Stuttu eftir það yfirgaf ég heimili foreldra minna. Ég var sautján ára þegar ég fór að heiman vegna þess að þau voru að skipta sér af mér, og ég fór líka í mína fyrstu meðferð það sama ár. Þetta vindur upp á sig svo fljótt. Maður segir við sjálfan sig: „Ég ætla bara að reykja hass,“ svo ertu allt í einu farinn að nota amfetamín og áður en þú veist af er þetta búið að yfirtaka líf þitt. Þetta er kannski gaman og spennandi til að byrja með en síðan ertu farinn að ljúga að sjálfum þér að þetta sé ennþá gaman, en það er ekkert annað en sjálfsblekking þar sem þú ert orðinn háður efnunum – andlega og líkamlega.“

Elfar náði ekki að halda sér edrú eftir meðferðina sautján ára gamall. Ári síðar leitaði hann til Götusmiðjunnar þar sem hann náði frábærum árangri að eigin sögn. „En ég entist ekkert edrú. Maður var ekki búinn að átta sig á því á þessum tíma hvað þetta var alvarlegt. Ég sé það í dag að það versta við þetta líferni er hvaða áhrif það hefur á fjölskylduna. Það erfiðasta sem ég er að fást við í dag er að fyrirgefa sjálfum mér á hverjum einasta degi fyrir það sem ég gerði fólki. Það er ábyggilega ástæðan fyrir að árangurinn er oft svona lítill hjá fólki. Ég fékk fyrirgefningu frá þeim um leið og ég fór að ná árangri. Eina sem fólkið mitt vildi var að ég væri edrú og að gera eitthvað við líf mitt. Móðir mín yngdist um tíu ár eftir þrjá mánuði af edrúmennsku minni. Þá var hún farin að sofa á nóttunni. Hún varð aftur glæsilega, flotta konan sem hún hefur alltaf verið, en var búin að tapa út af áhyggjum af mér.

Heimilslaust sófadýr

Rétt fyrir tvítugt fór Elfar að stunda sjómennsku. „Það má deila um það hvort það hafi verið gott eða slæmt. Ég var góður í vinnunni minni og elskaði hana. Ég var alltaf edrú þegar ég var í vinnunni. Ég var sem sagt allsgáður í þrjár vikur og svo vikuna sem ég var heima var ég allan tímann í því. Í rauninni var ég heimilislaus frá 19 til 27 ára aldurs, svona sófadýr eins og þeir segja, þangað til að ég kom aftur til mömmu og pabba með skottið á milli lappanna.“
 
Elfar var það slæmur í landi að hann gat ekki séð sér fært um að mæta í tvo daga í endurmenntun hjá Slysavarnarskólanum og því gat hann ekki verið á undanþágu á sjónum lengur. Hann fór því í land um jólin 2015 og fór í meðferð í júní næsta ár. „Í þetta skipti var ég ekkert að fara að vera edrú ef ég á að segja eins og er. Ég var búinn að vera stanslaust á einhverju djammi og flakki og taka toll af foreldrum mínum. Ég ákvað að fara í tíu daga meðferð því hugsunin náði ekki lengra en að borða í tíu daga í senn. Inn á Vogi í þetta skipti fór ég á tólf spora fund og það kviknaði eitthvað ljós, einhver von. Þetta líferni var orðið leiðinlegt. Ég var búinn að þróa með mér spilafíkn síðustu tvö árin á undan þar sem lyfin voru hætt að gera nokkuð fyrir mig. Mér leiddist. Þarna var ég kominn með leið á þessu, kominn með nóg. Ég þurfti að viðurkenna fyrir sjálfum mér að ég væri búinn að lifa lífinu á rangan hátt. Ég þurfti að byrja á því að æfa mig að bursta tennurnar tvisvar á dag, búa um rúmið mitt á morgnana. Ég þurfti að læra að tala við fólk upp á nýtt. Það var rosalega erfitt. Ég man eftir að hafa farið með foreldrum mínum upp í bústað stuttu eftir að ég hætti. Ég gat ekki talað neitt í tvo sólarhringa þar sem ég kunni ekki að eiga samskipti við eðlilegt fólk. Ég þurfti að sitja, hlusta og átta mig á því hvernig ég gæti hagað mér. Það er erfitt fyrir 28 ára gamlan mann að átta sig á því að hann er eins og lítið barn. Það er særandi fyrir egóið.“ Nú tveimur árum síðar er Elfar enn að læra fullt af nýjum hlutum.
 
Flestir sem hafa sokkið djúpt í neyslu ná ekki fullum bata að mati Elfars. „Mér er ekki óhult ennþá og þarf stanslaust að vera á verði gagnvart mínum eigin hugsunum.“ Elfar rifjar upp það tímabil í fyrra þegar þessir fimm félagar hans ákváðu að taka eigið líf. Hann langar ekki að horfa upp á slíka hluti. Elfar er talsmaður þess að besta forvörnin komi með fræðslu. „Ég mun ekki ráðleggja fólki að ekki prófa þetta eða ekki gera hitt. Fólk þarf að átta sig á því að það á ekki að fara út í þetta. Við sem samfélag eigum þó fyrst og fremst að hætta að líta á þetta sem glæpi.“

Grét stanslaust í þrjá tíma

„Ég er sonur foreldra minna. Ég er vel upp alinn og mér var kennt hvað er rétt og hvað er rangt í lífinu. Það erfiðasta við þetta er alltaf fjölskyldan. Alveg sama hvað þá áttu alltaf einhvern sem þykir vænt um þig. Í vörn þá ýtir maður þeim burtu frá sér. Faðir minn var orðinn svo þungur síðustu árin áður en ég varð edrú, við áttum varla nein samskipti. Eftir að ég fór að ná árangri þá sátum við saman og horfðum á Criminal Minds á RÚV. Gamli byrjar að vera þreyttur og hann stendur upp og klappar mér á kollinum og segir: „Góða nótt elsku Elfar minn ég sé þig í fyrramálið.“ Ég grét samfleytt í þrjá klukkutíma eftir þetta augnablik því ég var búinn að gleyma því hvað ég þurfti mikið á ást föður míns að halda. Það komu alls kyns svona augnablik þar sem ég áttaði mig á því að ég hafði ýtt þessu öllu frá mér í þrettán ár, þegar þetta var það eina sem ég þráði. Það að læra að vera elskaður aftur, það er rosalega erfitt.“
 
Kvikmyndin Lof mér að falla hefur vakið máls á þeim fíknivanda sem þjóðin stendur frammi fyrir. Elfar segir að þarna sé loks komin mynd sem sýni ástandið eins og það er í raun og veru. „Við viljum ekki trúa að þetta sé til, að lífið sé svona.“
 
Hvernig er þessi heimur?
„Hann er alltaf verri en þú getur ímyndað þér. Þetta er ofsalega eigingjarn heimur. Ég var að ræða við einn um daginn sem sagðist hafa eytt síðustu 20 árum í að drepa allt það góða innra með sér. Hversu harður og ljótur er þessi heimur ef þú ert meðvitað að drepa allt það góða til þess að geta þrifist í honum. Bara til þess að svala fíkn þinni þarft þú að vera tilbúinn að fórna öllu þínu siðferði. Þú ert veikur einstaklingur en ert talinn glæpamaður. Þetta er sjúkt ástand og fólk þarf hjálp, það þarf ekki að loka það frá umheiminum,“ segir Elfar og bætir því við að fólk þurfi að vita að það geti fengið fyrirgefningu og öðlast traust á ný þrátt fyrir fortíð sína. Hann segist í dag upplifa fordóma vegna sögu sinnar.

Verum tilbúin þegar glugginn opnast

Hvað með þá sem eru í neyslu? Getur maður rétt fram hjálparhönd á meðan viðkomandi er djúpt sokkinn eða þarf hann af finna sína leið sjálfur? „Það er talað um „tækifærisglugga“, hann opnast annað slagið. Það fer þó allt eftir einstaklingnum. Við sem stöndum við bakið á þessu fólki þurfum að vera opin og fylgjast með þegar þetta augnablik gefst. Þessi gluggi er alltaf þarna. Í mínu tilfelli var ég leiður og alveg hlutlaus. Ég sótti fund þar sem ég meðtók allt og það breytti lífi mínu. Þetta augnablik kemur en manneskjan mun hugsanlega reyna að forðast þig eins mikið og hún getur. Alls ekki gefast upp. Það þarf auðvitað að mynda ákveðna fjarlægð. Fíkillinn getur ekki látið ganga á sig endalaust, fíknin er sjúkdómur sjálfselskunnar. Ég hef fengið tækifæri til þess að hjálpa fólki sem mér þykir vænt um. Bróðir minn er besta dæmið. Þar opnaðist gluggi. Nú er hann búinn að vera edrú í eitt ár og líður vel í fyrsta sinn. Það er með því dýrmætasta sem ég hef fengið að upplifa síðan það rann af mér.“

Sendi Stephen King dollara í umslagi

Í kvikmyndaskólanum átti Elfar að vinna stuttmynd byggða á áður útgefnu efni. Hann komst að því að hrollvekjukóngurinn Stephen King býður upp á smásögur sem kallast „Dollar Baby“ þar sem ungt kvikmyndagerðarfólk getur nýtt sér sögur hans til þess að æfa sig í faginu. „Ég fann það út að Poppsy, ein eftirlætissmásaga mín eftir hann var aðgengileg, þá var ekki aftur snúið. Degi seinna var ég bara búinn að fá senda pappíra og undirrita samning. Það að senda dollara í umslagi heim til Stephen King er eitt það súrealískasta í lífi mínu. Núna í dag er ég að gera hana klára fyrir Frostbiter sem er íslensk hrollvekjuhátíð.“
 
Næsta verkefni er að gera mynd í fullri lengd. „Draumurinn að fást eingöngu við þetta. Ég ætla í raun og veru að leggja allt á mig til að það takist. Hvort sem það er sem leikstjóri, leikari eða handritshöfundur. Að eiga feril þar sem þú getur fengið að gera það sem þér finnst skemmtilegt að gera og njóta þess alla daga. Þetta snýst um það og að gera fjölskylduna stolta og fá að eyða tíma með henni. Bara að fá að blómstra sem einstaklingur,“ segir Elfar einlægur.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024