Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fíkniefnasalinn fer ekki í sumarfrí
Sunnudagur 25. júlí 2010 kl. 17:28

Fíkniefnasalinn fer ekki í sumarfrí

Forvarnarfélagið Lundur heldur úti starfi á Suðurnesjum í fíkniefnaforvörnum. Nýverið lauk Lundur fyrirlestrum yfir 450 ungmennum úr Vinnuskóla Reykjanesbæjar, þar sem vinnuskólafólkinu var gerður ljós fíkniefnaheimurinn á Suðurnesjum og varað við þeim hættum sem leynast í undirheimum Suðurnesja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Undirheimarnir fara ekki í sumarfrí og engar tilslakanir eru á fíkniefnamarkaði yfir sumartímann. Fíkniefnasalinn fer ekki í sumarfrí. Hins vegar dregur úr þjónustu hjá Lundi yfir sumartímann þegar ráðgjafar fara í frí en þeir mæta ekki aftur til leiks fyrr en í vikunni eftir verslunarmannahelgi. Erlingur Jónsson, sem fer fyrir starfinu í Lundi segist þó ætla að verða til staðar í allt sumar fyrir þá sem vilja ræða málin eða fá upplýsingar. Erlingur er með tvö símanúmer sem má hafa samband við en það eru númerin 772-5463 og 864-5452.


Vildi hafa aukinn liðsstyrk

Aðspurður um ástandið í undirheimum Suðurnesja, sagði Erlingur að hann vildi hafa aukinn liðsstyrk til að takast á við þau verkefni sem eru svo aðkallandi í dag. Erlingur er með hóp ungra einstaklinga með sér í forvarnastarfinu sem miðlar reynslusögum sínum. Í samtali við Víkurfréttir sagði Erlingur að hópurinn sem hann sé með í dag sé í grunninn sami hópur og byrjaði með honum þegar Lundur var settur á stofn. Hins vegar hafi nær allur hópurinn fallið í neyslu fíkniefna í millitíðinni en sé orðinn edrú að nýju. Þetta sé til marks um það hversu erfiður heimur fíkniefnaheimurinn er. Erlingur segir það hjálpa þessum krökkum mikið að viðhalda edrúmennskunni að miðla upplýsingum til fólks úr reynslubrunni sínum.


Mjög slæmt ástand á Suðurnesjum

Ástandið er mjög slæmt á Suðurnesjum í dag. Margir séu í neyslu fíkniefna og þeir sem byrja í neyslu séu alltaf að verða yngri og yngri. Erlingur segist fá mikið af hringingum frá foreldrum og jafnvel ungmennum sem vilja fá upplýsingar og leita sér hjálpar. Hann segir að fólk vilji jafnvel leysa úr sínum málum sjálft og heyri því ekkert frekar frá fólki, fyrr en næsti skellur kemur.

Birtingarmyndir fíkniefnaneyslunnar eru ýmsar. Nú í vor stöðvaði lögreglan bifreið hér á Suðurnesjum sem var full af ungmennum sem voru öll í neyslu fíkniefna og ökumaðurinn þar á meðal. Þá mætti móðir á fyrirlestur yfir ungmennum frá Vinnuskólanum. Hún hafði brugðið sér út úr bænum um helgi en þegar hún kom heim var íbúðin hennar í rúst eftir fíkniefnaveislu sem elstu börnin hennar héldu í íbúðinni.


Ömurlegt líf með fíkniefnum

Ungmennunum úr Vinnuskóla Reykjanesbæjar er gert ljóst að með því að villast inn í fíkniefnaheiminn eru þau ekki bara að skapa sér ömurlegt líf á meðan á neyslu fíkniefna stendur, heldur mega þau eiga von á því að verða fyrir ítrekuðu eftirliti lögreglunnar löngu eftir að neyslu lýkur. Lögreglan kortleggur vel þá sem tengjast fíkniefnum. Einn fyrirlesarinn sem mætti í Lund til að segja reynslusögu sína sagðist hafa verið stöðvaður af lögreglu. Þá var annar fyrirlesari hjá Lundi með það á tæru að lögreglan hleri símann hans og hafi örugglega til þess ríka ástæðu vegna þátttöku sinnar í undirheimalíferni.

Erlingur segir sorglegt hversu margir séu komnir í neyslu fíkniefna. Þjóðfélagsástandið sé þannig á Suðurnesjum að margir leiti á náðir fíkniefna. Hann segist hafa rætt við lækni nýverið sem sagðist geta vísað tugum ef ekki hundruðum skjólstæðinga sinna á þau úrræði sem Lundur hefur verið að bjóða. Þetta sama fólk er að leita til lækna í von um að fá lyf til að deyfa líðan sína vegna þess ástands sem er á mörgum heimilum í dag.

Fræðsla fyrir foreldra og aðstandendur

Erlingur segist vísa fólki á viðeigandi aðila þegar leitað er til hans, hvort sem það eru lögreglan, ráðgjafar eða sálfræðingar. Sjálfur sé hann ekki ráðgjafi, heldur miðli af reynslu sinni. Þá er Lundur með foreldrafræðslu fyrir aðstandendur þeirra sem eru í fíkniefnaneyslu og einnig fyrir foreldra í heild. Það þurfi ekki að vera einstaklingur innan fjölskyldunnnar í neyslu eða vandamál vegna fíkniefna. Það eru til foreldrar sem vilja þekkja hætturnar þá kemur foreldrafræðslan að góðum notum. Það má því kalla fyrirhyggju í forvörnum.

Fyrsta árið sem Lundur starfaði fór Erlingur í 30 heimsóknir í skóla og fyrirtæki. Einhverra hluta vegna gengur erfiðlega í dag að komast inn í skólana með fræðslu. Erlingur segist hafa sent erindi á bæjarskrifstofur og óskað eftir því að boðum verði komið áfram á skólana. Það hefur ekki skilað árangri. Erlingur segist opinn fyrir því að fara með kynningar inn í fyrirtæki, stofnanir og jafnvel saumaklúbba. Alls staðar þar sem fólk vill hlusta.