FIÐLUSMIÐUR Í FJÖLBRAUT
Aðeins tveir hljóðfærasmiðir eru nú starfandi á Íslandi og annar þeirra er Keflvíkingur, Jón Marinó Jónsson. Hann lærði húsasmíði í FS og stofnaði fyrirtækið Fjölin sf. að námi loknu. Eftir nokkur ár í fyrirtækjarekstri ákvað Jón að venda kvæði sínu í kross og læra hljóðfærasmíði á Englandi. Hann mun ljúka námi vorið 2000, og fékk vinna lokaverkefni sín áÍslandi. Jón heimsótti FS á dögunum og sýndi m.a. sínum gamla kennara, Sturlaugi Ólafssyni, listasmíð sína.Gamall draumur„Ég hef alltaf haft gaman af útskurði og slíku. Erlingur Jónsson, listamaður, kenndi mér í gaggó í gamla daga og hann hvatti mig til að fara í einhvers konar fínsmíði. Ég var ekki tilbúin því mér fannst það ekki nógu praktískt”, sagði Jón þegar hann var spurður um aðdraganda hljóðfærasmíðanámsins. „Ég lærði húsasmíði í FS og stofnaði Fjölina sf. að námi loknu ásamt félögum mínum. Tímabilið 1992-1993 var okkur erfitt því þá var mikil kreppa hjá iðnaðarmönnum. Ég gafst upp á rekstrinu og fór að vinna hjá hernum, en það átti ekki vel við mig. Okkur hjónunum hafði lengi langað til að breyta til og búa erlendis og við slógum bara til. Það má því segja að þetta sé gamall draumur sem rættist”, sagði Jón.Gott að búa á Englandi„Ég kunni mjög vel við mig á Englandi. Við fórum í þeim tilgangi að kynna okkur enska tungu og menningu og lögðum okkur því fram við að kynnast heimamönnum”, sagði Jón og bætti við að þau hjónin hafi eignast marga góða kunningja þar sem þau haldi enn sambandi við. Hann sagði að Bretar séu öllu afslappaðri en Íslendingar og íhaldsamari að mörgu leyti. Það sem hafi komið honum mest á óvart væri mannmergðin, gífurleg lotning fyrir konungsfjölskyldunni og mikil stéttaskipting.ÞolinmæðisverkSmáar hendur eru ekki forsenda þess að verða góður fiðlusmiður, það er augljóst því Jón er stórhentur maður. Jón viðurkennir að erfiðast hafi verið að fara úr tommunum yfir í brot úr millimetra, þegar hann fór úr húsasmíðinni yfir í hljóðfærasmíðina. „Hljóðfærasmíði krefst fyrst og fremst vandvirkni og þolinmæði. Ég verð að vera í algjörri ró þegar ég smíða, hálfgerðri innhverfri íhugun. Að verða góður hljóðfærasmiður byggir á þjálfun og meiri þjálfun, að fá tilfinningun fyrir efninu og línunum”, sagði hinn dverghagi Jón að lokum.