Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fiðlarinn slær í gegn
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 16. nóvember 2019 kl. 15:12

Fiðlarinn slær í gegn

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hinn víðfrægi og sívinsæli söngleikur, Fiðlarinn á þakinu, í leikstjórn Jóhanns Smára Sævarssonar, var frumsýndur í Hljómahöll föstudaginn 15. nóvember fyrir troðfullu húsi og fagnaðarlátum ætlaði aldrei að linna í lokin.
Viðtökur frumsýningargesta voru frábærar en listamönnum sýningarinnar var fagnað ákaft í lokin með standandi lófataki, bravóhrópum og fagnaðarlátum, enda heppnaðist sýningin skínandi vel.

Aðeins sýnt þessa helgi

Fiðlarinn á þakinu er hátíðaruppfærsla Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Óperufélagsins Norðuróps í tilefni 20 ára afmælis beggja.
Í sýningunni fá gestir að heimsækja rússneska smáþorpið Anatevka, þar sem mjólkurpósturinn Tevje býr ásamt fjölskyldu sinni. Áhorfendur kynnast lífi lítils gyðingasamfélags, þar sem þorpsbúar lifa í föstum skorðum, mótað af aldagömlum hefðum og siðvenjum. Þegar æskan sýnir gömlu siðunum mótþróa og vill fá að leyfa hjartanu að ráða för þá verða átök á milli kynslóða. Þessi bráðskemmtilegi söngleikur er sannkölluð fjölskylduskemmtun.

Frábær leikstjórn

Jóhann Smári bætir enn einni fjöður í hattinn sinn með þessari uppsetningu á Fiðlaranum sem var stórskemmtileg. Hópurinn stóð sig afburðavel á sviði og margir komu á óvart með frábærum leik og söng. Leikstjórn Jóhanns Smára var markviss og örugg, sem gerði sýninguna sérlega líflega og skemmtilega. Tónlistin var dásamleg og hljóðfæraleikarar stóðu sig einkar vel undir öruggri stjórn Karenar J. Sturlaugsson, hljómsveitarstjóra.

Sýningar fara aðeins fram helgina 15. - 17. nóvember. Miðasala á tix.is 

[email protected]