Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fiðlarinn á þakinu og Dóri DNA á uppskeruhátíð menningarlífs í Duus Safnahúsum
Listakonan Sossa hlaut Súluna 2018 fyrir framlag sitt til myndlistar.
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
fimmtudaginn 14. nóvember 2019 kl. 13:40

Fiðlarinn á þakinu og Dóri DNA á uppskeruhátíð menningarlífs í Duus Safnahúsum

Það verður mikið um dýrðir í Duus Safnahúsum í dag, fimmtudag, þegar menningarverðlaun Reykjanesbæjar verða afhent, styrktaraðilum Ljósanætur verður þakkað og nýjar sýningar opnaðar. Meðal þess sem verður til skemmtunar er atriði úr Fiðlaranum á þakinu en það verður enginn annar en Jóhann Smári Sævarsson sem flytur lagið „Ef ég væri ríkur“ en söngleikurinn verður frumfluttur í Hljómahöll á föstudaginn í tilefni af 20 ára afmæli Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Óperufélagsins Norðuróps. Þá mun uppistandarinn, ljóðskáldið og rithöfundurinn Dóri DNA skemmta gestum.

Fjórar nýjar sýningar verða opnaðar á vegum Listasafns Reykjanesbæjar. Aðal sýning safnsins er á verkum úr safneign Braga Guðlaugssonar. Bragi, sem er veggfóðrarameistari, hefur um langt skeið safnað listaverkum af mikilli ástríðu. Í fórum hans er því að finna mörg ágæt verk frá ýmsum tímum. Heildstæðast er þó safn hans af verkum eftir íslenska listamenn á tímabilinu 1930-1960, þegar myndlistin í landinu stóð frammi fyrir meiri breytingum en nokkru sinni fyrr. Listasafn Reykjanesbæjar hefur fengið að velja úr þessu safni nokkrar myndir, aðallega olíumálverk, eftir þrettán listamenn sem endurspegla mikið umbrotaskeið íslenskrar myndlistar, þegar umfjöllun um veruleikann er smátt og smátt að víkja fyrir hugmyndinni um listaverkið sem sjálfstæðan veruleika. Þarna er aðallega um að ræða verkin sem kynslóð eftirstríðsáranna gerði í aðdraganda myndlistarbyltingarinnar sem kennd er við Septembersýningarnar 1947-52, sem sagt „Ágústmyndir Septembermanna“. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við sama tilefni verður opnuð sýning Elvu Hreiðarsdóttur, FÖR, verk unnin með blandaðri tækni og einþrykk. Þá verður opnuð sýningin PERSÓNULEGAR SÖGUR, ljósmyndir og vídeóverk unnin af listakonunni Venu Naskrecka og Adam Calicki í tilefni pólskrar menningarhátíðar í Reykjanesbæ. Sýningin fjallar um með hvaða hætti persónuleg tengsl geta myndast á milli fólks af ólíkum uppruna. Vena og Adam eru bæði frá Póllandi en eru nú búsett í Reykjanesbæ. Þá verða einnig til sýnis skemmtileg verk eftir Jönu Birtu Björnsdóttur sem ætlað er að vekja athygli á fjölbreytileikanum í mannlegu samfélagi með því að sýna notkun hjálpartækja í jákvæðu samhengi.

Ókeypis aðgangur er við opnun. Sýningin Persónulegar sögur stendur til 24. nóvember en hinar til 12.janúar.