Fiðlarinn á þakinu í Hljómahöll
Frumsýning 15. nóvember
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar, í samstarfi við Óperufélagið Norðuróp, setur upp söngleikinn „Fiðlarinn á þakinu“ í næsta mánuði. Tilefnið er 20 ára afmæli Tónlistarskóla Reykjanesbæjar á þessu ári en Óperufélagið Norðuróp verður einnig 20 ára.
Víkurfréttir hittu aðstandendur sýningarinnar, þau Jóhann Smára Sævarsson, leikstjóra, Karen J. Sturlaugsson, hljómsveitarstjóra, og Harald Á. Haraldsson, skólastjóra Tónlistarskólans, sem er jafnframt framkvæmdastjóri sýningarinnar ásamt Jóhanni Smára. Öll eru þau orðin mjög spennt, enda stutt í frumsýningu 15. nóvember.
Sýningar fara fram í Stapa, Hljómahöll.
Undirbúningur hófst fyrir einu ári
Jóhann Smári hefur tekið þátt í mörgum óperusýningum bæði hérlendis og erlendis.
„Við vorum með prufusöng fyrir ári þar sem alls konar fólk mætti sem vildi taka þátt í uppsetningunni. Grunnurinn í sýningunni eru söngnemendur héðan en einnig úr kórum af svæðinu. Það er Suðurnesjafólk sem tekur þátt. Við erum með söngvara úr Grindavík, Sandgerði og Garði ásamt söngvurum úr Reykjanesbæ. Ég og Dagný Jónsdóttir sjáum um að þjálfa söngvarana í sýningunni en ég leikstýri jafnframt og leik sjálfur hlutverk mjólkurpóstsins Tevje,“ segir Jóhann Smári, bassasöngvari, sem á sjálfsagt léttara með það en margir aðrir að syngja hlutverk hins djúpraddaða Tevje.
Jóhann Smári Sævarsson hefur áður sungið þetta hlutverk og voru dómar mjög hástemmdir enda þykir voldug bassarödd hans afar tilkomumikil. Jóhann Smári stundaði framhaldsnám í söng við óperudeild Royal College of Music og Royal Academy of Music í London. Að námi loknu réði hann sig til Kölnaróperunnar í þrjú ár og var síðan á föstum samningi við óperuna í Regensburg. Jóhann Smári hefur sungið sem gestasöngvari við fjölda óperuhúsa í Evrópu. Nú eru Suðurnesjamenn heppnir að fá að njóta krafta hans og hæfileika því Jóhann Smári starfar bæði sem kórstjóri og söngkennari á Suðurnesjum allt árið um kring. Hann veitir forstöðu Norðuróp óperufélaginu sem, eins og áður sagði, fagnar tuttugu ára afmæli á þessu ári.
Karen J. Sturlaugsson, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, er löngu orðin þekkt sem tónlistarkennari og einnig fyrir Léttsveitina sem glatt hefur bæjarbúa við ýmiskonar tækifæri. Léttsveitin hefur verið eitt af flaggskipum menningarlífs Reykjanesbæjar í áratugi. Nær allan tímann hefur Karen byggt upp og stjórnað sveitinni. Hún sér um hljómsveitarstjórnina í sýningunni Fiðlarinn á þakinu.
„Samstarfið hefur gengið vel en nú reynir kannski meira á það þegar spennan er að aukast. Það er stórkostlegur metnaður hjá okkur og rjóminn af tónlistarsamfélaginu tekur þátt í sýningunni sem verður veisla fyrir augu og eyru. Þetta er heljar vinna en gaman. Það gengur vel að æfa. Við erum með svona fjórtán, fimmtán manns í hljómsveitinni, bæði eldri nemendur og kennara. Tónlistin er skemmtileg og ætti að höfða til fólks enda þekkja margir Fiðlarann á þakinu en við leigjum útsetningar erlendis frá,“ segir Karen.
Styttist í frumsýningu
Skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Haraldur Á. Haraldsson, er framkvæmdastjóri sýningarinnar ásamt Jóhanni Smára.
„Ég held utan um sýninguna. Til viðbótar við hljómsveitina eru 35 söngvarar sem taka þátt. Heilmikið batterí í kringum þetta. Jóhann Smári er í aðalhlutverki, sem er stórt hlutverk, en aðrir fá einnig að spreyta sig á því hlutverki á þessum þremur sýningum sem áætlaðar eru. Atvinnuóperuhúsin æfa sex klukkustundir á dag í sex vikur en við getum ekki æft nema svona þrisvar í viku. Þar sem við byrjuðum á þessu verkefni fyrir einu ári síðan þá hefur undirbúningur gengið vel. Nú er komin tilhlökkun í mannskapinn og æfingum fjölgar þegar nær dregur frumsýningu. Ég held einnig utan um sýningarskrána. Það er heilmikið sem gera þarf í svona metnaðarfullri sýningu eins og við ætlum að vera með. Fólk hefur auðvitað þurft að læra utan að hlutverkin sín, sem er heilmikill texti. Framundan er að búa til leikmynd en þá fáum við smiði til liðs við okkur og svo þarf að mála leikmyndina. Við eigum eftir að ákveða staðsetningu hljómsveitarinnar og hvernig sviðsljósin eiga að vera. Þetta er allt að skella á. Fiðlarinn á þakinu er stórskemmtileg sýning fyrir alla aldurshópa. Við hlökkum mikið til að bjóða fólki í óperuhúsið okkar. Við erum afar þakklát fyrir þann stuðning sem Uppbyggingarsjóður Suðurnesja veitti okkur og Reykjanesbær,“ segir Haraldur.
Sýningar hefjast föstudaginn 15. nóvember og eru ráðgerðar þrjár sýningar þessa helgi. Miðasala hefst 16. október á hljomaholl.is og á tix.is.