Ferskt grindvískt grænmeti selt á morgun
Þessa dagana er uppskeruhátíð í nýjum skólagörðum Vinnuskóla Grindavíkurbæjar og er uppskeran góð að sögn Ástu Jóhannesdóttur, garðyrkjustjóra. Hún segir að þetta sé í fyrsta skipti sem Vinnuskólinn bjóði upp á skólagarða en verkstjórarnir og unglingarnir í vinnuskólanum gróðursettu í vor.
,,Það er kominn tími til að kenna krökkunum að gróðursetja, ekki síst í kreppunni. Eftir því sem ég kemst næst hefur þetta ekki verið gert áður í Vinnuskólanum. Ætlunin er að fylgja þessu eftir á næsta ári með því að bærinn bjóði upp á almenningsgarða líkt og tíðkast í mörgum bæjarfélögum. Þá geta Grindvíkingar leigt sér skika og ræktað það sem þeir vilja,“ segir Ásta og er ráðgert að almenningsgarðarnir verði við gámastöð Kölku, við hliðina á skólagörðunum.
Brokkolí, hvítkál, grænkál og hnúðkál var ræktað í görðunum í sumar. Einnig voru settar niður kryddjurtir eins og steinselja, sítrónumelissa, salvía, rósmarín og minta. Kartöfluuppskeran verður síðar í mánuðinum enda voru kartöflurnar settar frekar seint niður.
Flokksstjórarnir í Vinnuskólanum sáu um að taka grænmetið upp í gær. Grænmetið verður svo selt á markaði á föstudaginn þar sem bæjarbúum gefst kostur á því að kaupa ferskt grindvískt grænmeti.
- sjá nánar í Víkurfréttum í dag.